Við erum alveg í skýjunum eftir velheppnaða afmælisveislu síðastliðinn laugardag. Við byrjuðum dagskrána á nokkrum stuttum og skemmtilegum ræðum. Ágústa Elín Ingþórsdóttir skólameistari sagði stuttlega frá stofnun skólans og gerði grein fyrir mikilvægi skólans fyrir samfélagið. Þá fjallaði hún einnig um gildi skólans og stefnu og sameiginlega ábyrgð okkar allra á því að skólinn þjóni markmiðum sínum. Að lokum kynnti hún veislustjórann, Hallgrím Ólafsson. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og fyrrverandi nemandi FVA fjallaði meðal annars um mikilvægi iðnnáms og fjölbreytts námsframboðs. Hún benti á mikilvægi þess að flétta saman bóknám og verknám til að ná sem bestum árangri. Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri og fyrrverandi nemandi FVA tók undir með Ágústu og Þórdísi um mikilvægi skólans fyrir samfélagið og atvinnulífið. Þá fjallaði hann einnig um mikilvægi iðn- og tæknigreina og gaf skólanum peningagjöf, fyrir hönd Akraneskaupstaðar, til kaupa á tölvubúnaði. Lilja S. Ólafsdóttir, aðstoðarskólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar sagði frá skólaárum sínum en Lilja var í fyrsta stúdentsárgangi skólans. Að lokum sagði Daníel Þór Heimisson, sem útskrifaðist frá skólanum 2015, frá skólaárum sínum. Lilja og Daníel voru sammála um mikilvægi kennara og samnemenda og minnast þau skólaáranna með hlýhug og þakklæti. Að loknum ræðum gátu gestir notið veitinga, skoðað skólann (þar með talið verknámshúsin okkar), fylgst með vídeóupptökum frá skólalífinu síðustu 40 ár og skoðað myndir, útskriftarbækur og fleira. Myndasýningarnar slóu rækilega í gegn en þær voru á fjórum stöðum víðsvegar um skólann og vöktu upp góðar minningar og skemmtu sér margir yfir að finna myndir af mömmu og pabba á unglingsárunum. Við höfum fengið nokkrar fyrirspurnir hvort myndirnar verði aðgengilegar á netinu og erum við að skoða það. Á gamla sal var lifandi tónlist en þar komu fram þau Halla Margrét Jónsdóttir, Ólöf Gunnarsdóttir, Valgerður Jónsdóttir, Heiðmar Eyjólfsson og Halla Jónsdóttir, þau eru öll núverandi og fyrrverandi nemendur skólans. Um kl 16:00 hófust svo stórtónleikar á sal. Húsbandið skipaði; Eirík Guðmundsson, Flosa Einarsson, Inga Björn Róbertsson, Jakob R. Garðarsson, Sigurþór Þorgilsson, Eðvarð Lárusson og Arnar Sigurgeirsson. Með þeim sungu; Rósa Sveinsdóttir, Hrund Snorradóttir, Ylfa Flosadóttir, Sveinbjörn Hafsteinsson, Hjördís Tinna Pálmadóttir, Hallgrímur Ólafsson, Heiðmar Eyjólfsson, Orri Sveinn Jónsson og Helga Ingibjörg Guðjónsdóttir. Einngi komu fram hljómsveitirnar Tíbrá, Abbababb og Slitnir strengir. Allt þetta hæfileikaríka fólk voru nemendur við skólann. Í tilefni dagsins gaf skólinn út 60 síðna afmælisrit. Allir sem mættu fengu eintak og verður blaðinu svo dreift á næstu dögum. Einnig kemur út rafræn útgáfa af blaðinu og verður hún sett á heimasíðuna á næstu dögum.

 

Á facebook síðu skólans eru komnar nokkrar myndir frá deginum.

 

 

Please publish modules in offcanvas position.