Minningarorð
Í dag er til moldar borinn Akurnesingurinn Guðbjartur Hannesson. Guðbjartur, eða Gutti eins og hann var kallaður, var landskunnur fyrir störf sín að þjóðmálum. Hann var þingmaður Samfylkingar á Vesturlandi og velferðarráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Á Akranesi sat hann auk þess í bæjarstjórn um langt skeið. Þá hafði hann á hendi forystu bæði í skátahreyfingunni og íþróttahreyfingunni; var ávallt skáti og alla tíð í hópi dyggustu stuðningsmanna ÍA.
Stærstan hluta ferils síns starfaði Gutti að skólamálum. Þegar nýr grunnskóli var stofnaður á Akranesi í byrjun níunda áratugarins, Grundaskóli, var Gutti ráðinn skólastjóri og því starfi gegndi hann í rúm 25 ár. Þar markaði hann djúp og heillarík spor fyrir æskufólk á Akranesi. Hann hafði róttækar skoðanir, var óhræddur að framfylgja þeim og þegar Íslensku menntaverðlaunin voru veitt í fyrsta skipti komu þau í hlut Grundaskóla. Það var heiður fyrir skólann og bæjarfélagið og viðurkenning á frumkvöðlastarfi Gutta. Engu að síður var það umburðarlyndi hans og manngæska sem var mest áberandi í fari hans sem skólamanns. Hann var farsæll leiðtogi sem naut ómældrar virðingar og vinsælda í störfum sínum öllum.
Víst er að með sviplegu fráfalli Gutta upplifa Akurnesingar sáran missi. En dýrmæt arfleifðin sem hann skilur eftir sig mun lifa. Starfsfólk Fjölbrautaskóla Vesturlands vottar eiginkonu Gutta, dætrum hans og fjölskyldunni allri dýpstu samúð.