Skólahlaup FVA á miðvikudag í næstu viku

Á miðvikudag í næstu viku verður skólahlaup Fjölbrautaskóla Vesturlands haldið í fyrsta sinn. Skokkað verður af stað frá skólanum klukkan 11. Leiðin er 3 kílómetrar. Allir nemendur og starfsmenn eru hvattir til að mæta klæddir og skóaðir til útiveru og vera með. Þeim sem vilja fremur ganga en hlaupa er það að sjálfsögðu heimilt.

Páskaleyfi og lokun heimavistar

Páskaleyfi byrjar um næstu helgi. Kennsla hefst aftur miðvikudaginn 11. apríl. Heimavistinni verður lokað klukkan 17 föstudaginn 30. mars og hún opnuð aftur klukkan 18 þriðjudaginn 10. apríl.

Nemendur í SÁL373 heimsóttu SÁÁ og tollinn

Á föstudaginn var fóru nemendur í sálfræði 373 í námsferð með kennara sínum, Steinunni Evu Þórðardóttur, og heimsóttu SÁÁ og tollinn í Reykjavík en áfanginn fjallar um fíkniefni og forvarnir. Á myndinni sést hluti hópsins í heimsókn hjá tollinum.

 

Mat á starfi skólans

Á fimmtudag og föstudag í síðustu viku voru Bragi Guðmundsson og Trausti Þorsteinsson frá Háskólanum á Akureyri í heimsókn í skólanum og tóku viðtöl við kennara og nemendur. Viðtölin eru hluti af vinnu þeirra við mat á starfi skólans sem unnið er að tilhlutan Mennta- og menningarmálaráðuneytisins í samræmi við 42. grein laga um framhaldsskóla (númer 92 frá 2008).

Tónleikar skólakórs á miðvikudagskvöld

Klukkan 8 á miðvikudagskvöld (21. mars) heldur kór Fjölbrautaskóla Vesturlands tónleika á sal skólans. Aðgangseyrir er 500 krónur og allt sem kemur í kassann verður notað til að kaupa hljóðnema fyrir kórinn. Mætum öll, skemmtum okkur og leggjum fjársöfnun kórsins lið.

Þriðja sæti í forritunarkeppni

Síðasta laugardag var árleg forritunarkeppni framhaldsskólanna haldin í Háskólanum í Reykjavík. Fjölbrautaskóli Vesturlands sendi eitt lið sem keppti ásamt 18 öðrum liðum í Howard Wolowitz deildinni. Liðið sem skipað er þeim Hafdísi Erlu Helgadóttur, Kristrúnu Skúladóttur og Sveini Kristjáni Sveinssyni hafnaði í þriðja sæti í sinni deild. Liðin sem náðu fyrsta og öðru sæti í deildinni voru úr Tækniskólanum og Verzlunarskólanum. (Upplýsingar um keppnina eru á vefnum http://www.forritun.is/.) 

Skólavefurinn óskar Hafdísi Erlu, Kristrúnu og Sveini Kristjáni til hamingju með góðan árangur.

Velheppnuð árshátíð hjá nemendafélaginu á fimmtudaginn

Árshátið nemendafélagsins hófst klukkan 18 á fimmtudaginn með veislu á sal skólans og endaði með balli á Gamla Kaupfélaginu sem stóð til klukkan 2 eftir miðnætti. Veislustjórar voru Mið-Íslendingarnir Dóri DNA og Björn Bragi.

 Fjölbrautaskóli Vesturlands Akranesi | Vogabraut 5 | Sími: 433-2500 | skrifstofa(hjá)fva.is 
Kennitala: 681178-0239 | Opnunartími skrifstofu virka daga: 8:00-12:30 og 13:00-15:00