Skólahlaup FVA á morgun, miðvikudag

Á morgun, miðvikudag 18. apríl, verður skólahlaup Fjölbrautaskóla Vesturlands haldið í fyrsta sinn. Skokkað verður af stað frá skólanum klukkan 11. Leiðin er 3 kílómetrar. Allir nemendur og starfsmenn eru hvattir til að mæta klæddir og skóaðir til útiveru og vera með. Þeim sem vilja fremur ganga en hlaupa er það að sjálfsögðu heimilt.
   Vegna hlaupsins verður umsjónartíminn örstuttur þar sem aðeins verður merkt við. Hádegisverður í mötuneyti verður framreiddur frá klukkan 11:40 og fyrsti tími eftir hádegi skerðist um korter svo þeir sem vilja hafi tíma til að skipta um föt. Það verður því ekki hringt inn klukkan 12.25 eins og venjulegur heldur klukkan 12:40.

Viðurkenningar og verðlaun fyrir góðan árangur í stærðfræðikeppni

Laugardaginn 14. apríl voru þeim sem stóðu sig best í stærðfræðikeppni Fjölbrautaskólans afhentar viðurkenningar og verðlaun. Eins og jafnan áður fengu þeir tíu efstu í hverjum árgangi viðurkenningarskjal og þeir þrír efstu peningaverðlaun.
   Keppnin, sem er fyrir nemendur áttundu, níundu og tíundubekkja grunnskóla á Vesturlandi, var haldin föstudaginn 23. mars. Keppendur voru 87 og komu úr 9 skólum.

Fjölbrautaskólinn hefur nú í 14 ár í röð haldið stærðfræðikeppni með svipuðu sniði. Eins og síðustu tvö ár var kostnaður við keppnishald greiddur af fyrirtækinu Norðuráli. Keppnisgögn voru að þessu sinni búin til í Borgarholtsskóla og keppnin fór fram samstundis við þrjá skóla: Borgarholtskóla, Fjölbrautaskóla Vesturlands og Fjölbrautaskóla Suðurnesja.


 

Hjálpað til í leikskólum bæjarins

Í gær fóru nemendur á iðnbrautum í heimsóknir í alla fjóra leikskólana á Akranesi, hittu leikskólakrakka og kennara og tóku til hendinni þar sem þurfti að gera við búnað og tæki. Nemendur á öðru og þriðja ári í málmiðnadeild höfðu leikföng sem þurfti að dytta að með sér á verkstæði fjölbrautaskólans þar sem myndirnar hér að neðan voru teknar. Leikföngunum verður svo skilað á leikskólana þegar þau verða komin í lag.

Skólahlaup FVA á miðvikudag í næstu viku

Á miðvikudag í næstu viku verður skólahlaup Fjölbrautaskóla Vesturlands haldið í fyrsta sinn. Skokkað verður af stað frá skólanum klukkan 11. Leiðin er 3 kílómetrar. Allir nemendur og starfsmenn eru hvattir til að mæta klæddir og skóaðir til útiveru og vera með. Þeim sem vilja fremur ganga en hlaupa er það að sjálfsögðu heimilt.

Páskaleyfi og lokun heimavistar

Páskaleyfi byrjar um næstu helgi. Kennsla hefst aftur miðvikudaginn 11. apríl. Heimavistinni verður lokað klukkan 17 föstudaginn 30. mars og hún opnuð aftur klukkan 18 þriðjudaginn 10. apríl.

Nemendur í SÁL373 heimsóttu SÁÁ og tollinn

Á föstudaginn var fóru nemendur í sálfræði 373 í námsferð með kennara sínum, Steinunni Evu Þórðardóttur, og heimsóttu SÁÁ og tollinn í Reykjavík en áfanginn fjallar um fíkniefni og forvarnir. Á myndinni sést hluti hópsins í heimsókn hjá tollinum.

 

Mat á starfi skólans

Á fimmtudag og föstudag í síðustu viku voru Bragi Guðmundsson og Trausti Þorsteinsson frá Háskólanum á Akureyri í heimsókn í skólanum og tóku viðtöl við kennara og nemendur. Viðtölin eru hluti af vinnu þeirra við mat á starfi skólans sem unnið er að tilhlutan Mennta- og menningarmálaráðuneytisins í samræmi við 42. grein laga um framhaldsskóla (númer 92 frá 2008).

Tónleikar skólakórs á miðvikudagskvöld

Klukkan 8 á miðvikudagskvöld (21. mars) heldur kór Fjölbrautaskóla Vesturlands tónleika á sal skólans. Aðgangseyrir er 500 krónur og allt sem kemur í kassann verður notað til að kaupa hljóðnema fyrir kórinn. Mætum öll, skemmtum okkur og leggjum fjársöfnun kórsins lið.

 Fjölbrautaskóli Vesturlands Akranesi | Vogabraut 5 | Sími: 433-2500 | skrifstofa(hjá)fva.is 
Kennitala: 681178-0239 | Opnunartími skrifstofu virka daga: 8:00-12:30 og 13:00-15:00