fbpx

1.1 Stefna Skólans

Skólanámskrá FVA

Stefna Fjölbrautaskóla Vesturlands er að:

 1. Veita öllum nemendum sínum góða menntun sem felur í sér þekkingu, leikni og hæfni í einstökum greinum, víðsýni og gagnrýna hugsun, ábyrgð og sanngirni, vandvirkni og góð vinnubrögð.
 2. Vera umhyggjusamur um velferð nemenda sinna og stuðla að heilbrigðum lífsháttum.
 3. Bera virðingu fyrir hverjum einstaklingi og koma fram við alla í anda jafnréttis og lýðræðis.

Til að þessi markmið náist leggur skólinn áherslu á:

 1. Að hver nemandi finni að velferð hans skipti máli og kennurum og stjórnendum skólans þyki mikilvægt að hann nýti og þroski hæfileika sína, vinni vel og nái góðum árangri.
 2. Að bjóða nám á mörgum brautum, sem hæfir nemendum með ólíka getu og hæfni, margvísleg áhugamál og ólíkar þarfir.
 3. Að skólareglur stuðli að árangursríku námi, gagnkvæmri virðingu nemenda, kennara og annars starfsfólks og hvetji til góðrar umgengni, tillitssemi og umburðarlyndis.
 4. Að kennarar veiti nemendum skýrar upplýsingar um námsmarkmið og námskröfur, hvetji alla nemendur til að leggja sig fram og velji viðfangsefni og kennsluaðferðir sem stuðla að því að þeir nái skilgreindum markmiðum.
 5. Grunnþætti menntunar sem lýst er í Aðalnámskrá framhaldsskóla 2011. Þeir eru: 1) læsi, 2) sköpun, 3) sjálfbærni, 4) heil­brigði og velferð, 5) jafnrétti, 6) lýðræði og mannréttindi. Fræðslu um þessa þætti er fléttað saman við kennslu margra námsgreina og fyrir hvern þeirra er boðið upp á einn eða fleiri áfanga þar sem hann er í fyrirrúmi. Jafnframt er leitast við að vekja bæði nemendur og starfsfólk til umhugsunar og samræðu um grunngildi skólastarfsins. Hér á eftir er því lýst í stuttu máli hvað skólinn gerir til að starfa í anda þessara grunnþátta.

1. Læsi

Tungumálið er tæki til að hugsa og tjá sig og hæfni í notkun þess er meginmarkmið skólastarfs og menntunar. Læsi er mikilvægur hluti þessarar hæfni og felur í sér getu til að skilja og túlka texta, gögn og upplýsingar af ýmsu tagi. Við stuðlum að læsi með því að:

 • Örva nemendur til að tjá sig í ræðu og riti og skapa aðstæður sem hvetja til lestrar.
 • Auka orðaforða nemenda og fjölga hugtökum sem þeir hafa á valdi sínu.
 • Efla skilning nemenda á fjölbreyttu námsefni og hæfni þeirra til að túlka það og setja í víðara samhengi.

2. Sköpun

Við stuðlum að sköpun með því að:

 • Hvetja nemendur til að sjá nýjar og ólíkar hliðar á sama veruleika, sýna frumkvæði og áræðni og nýta þekkingu sína á frumlegan hátt.
 • Flétta tjáningu og sjálfstæðri verkefnavinnu saman við nám.
 • Veita nemendum tækifæri til skapandi starfs.

3. Sjálfbærni

Við stuðlum að sjálfbærum lífsháttum með því að:

 • Hjálpa nemendum að sjá eigið líf í víðu samhengi, sem hluta af náttúru, menningu og sögu.
 • Hvetja til hófsemi og nægjusemi.
 • Hvetja nemendur til að láta sig varða um umhverfið og velferð komandi kynslóða.

4. Heilbrigði og velferð

Við stuðlum að heilbrigði og velferð. Þetta gerum við með því að:

 • Hæfileikar nemenda njóti sín og þeim sé hrósað fyrir það sem þeir gera vel.
 • Gera nemendur meðvitaða um styrkleika sína.
 • Gefa öllum nemendum kost á ráðgjöf.
 • Hvetja til heilbrigðra lífshátta og styðja uppbyggilegt félagslíf.
 • Vinna gegn hegðun sem veldur vanlíðan eða heilsutjóni.

5. Jafnrétti

Við vinnum í anda jafnréttis. Þetta gerum við með því að:

 • Gæta þess að allir eigi þess kost að nýta hæfileika sína án hamlandi áhrifa fordóma og staðalímynda.
 • Koma í veg fyrir ranglæti og mismunun þar á meðal einelti, kynferðislega áreitni og annað ofbeldi.
 • Nota fjölbreytilegar kennsluaðferðir til að mæta þörfum ólíkra nemenda.
 • Nemendur kynnist ýmsum tegundum jafnréttis, s.s. kynjajafnrétti, kynþáttajafnrétti, jöfnum rétti fatlaðra og ófatlaðra og jöfnum rétti jarðarbúa til auðlinda.

6. Lýðræði og mannréttindi

Við vinnum í anda lýðræðis og mannréttinda. Þetta gerum við með því að:

 • Skólastjórnendur hafi reglulega samráð við kjörna fulltrúa nemenda í skólaráði og aðalstjórn nemendafélagsins.
 • Gæta þess að ákvarðanir um skólastarfið styðjist við málefnaleg rök og ástæður sem allir fá tækifæri til að gagnrýna og ræða.
 • Hvetja alla nemendur til virkni í félagslífi, gefa þeim kost á að hafa áhrif á skólasamfélagið og gera þeim ljóst hvernig þeir geta gert það.
 • Hvetja alla nemendur til að láta sig varða um almannahag, mannréttindi og málefni samfélagsins.
 • Nemendur öðlist aukna hæfni í samskiptum og lýðræðislegum vinnubrögðum í náminu.