fbpx

3. Samskipta- og skólareglur

Skólanámskrá FVA

Samskipta- og skólareglur í FVA eiga það sameiginlegt að byggja á gagnkvæmri virðingu nemenda, kennara og annars starfsfólks. Auk þess er andi þeirra sá að hvetja til góðrar umgengni, tillitssemi og umburðarlyndis.

Það er stefna FVA að stuðla að því að allir sem þar starfa, nemendur, kennarar og annað starfsfólk, umgangist hver annan af kurteisi og tillitssemi. Nemendur og aðrir sem leita eftir þjónustu skrifstofu, bókasafns, heimavistar og mötuneytis eiga að finna gott og vinsamlegt viðmót. Á sama hátt ætlast skólinn til þess að allir þeir sem leita eftir þjónustu geri það á kurteislegan hátt og sýni skilning og biðlund ef ekki er hægt að sinna erindum þeirra samstundis.

Um skólareglur, breytingar á þeim, undanþágur frá þeim og viðurlög við brotum (öðrum en brotum á skólasóknarreglum) er fjallað í skólaráði. Það er skipað tveim fulltrúum nemenda, tveim kennurum, skólameistara og aðstoðarskólameistara.

Áður en brot á skólareglum eða önnur mál sem varða einstaka nemendur eru tekin til umfjöllunar í skólaráði eru nemendur sem í hlut eiga, og forráðamenn þeirra ef þeir eru yngri en 18 ára, látnir vita. Strax að loknum skólaráðsfundi tilkynnir skólameistari þeim skriflega um niðurstöðu skólaráðs.