Áætlun gegn einelti

Viðbragðsáætlun Fjölbrautaskóla Vesturlands Akranesi (FVA) gegn einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi

Viðbragðsáætlun þessi byggir á stefnu FVA gegn einelti, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni eða öðru ofbeldi, dags. 7.  janúar 2019.

Mikilvægt er að hafa í huga að allir geta orðið fyrir einelti eða ofbeldi, kynbundnu, kynferðislegu eða af öðrum toga. Vakni grunur eða liggi fyrir staðfesting um að einelti eða ofbeldi sé í gangi skal tekið á málunum strax. Enginn á að sætta sig við óviðeigandi hegðun af þessu tagi á vinnustaðnum, hvorki starfsfólk né nemendur.

Meginmarkmið viðbragðsáætlunar

 • Að vera skilvirkt ferli sem fylgt er þegar fram koma ábendingar um hugsanlegt eða staðfest einelti/ofbeldi
 • Að ferli viðbragða í eineltis-/ofbeldismálum sé kynnt starfsfólki, nemendum og forráðamönnum nemenda undir 18 ára aldri
 • Að vera hluti af forvarnaráætlun
 • Að stuðla að jákvæðum samskiptum

Allir þurfa að leggja sitt af mörkum

Hlutverk stjórnenda Hlutverk starfsfólks og nemenda
 • Stuðla að markvissu vinnuverndarstarfi og sýna gott fordæmi
 • Gera áætlun um forvarnir og viðbrögð við einelti og öðru ofbeldi
 • Veita upplýsingar og bregðast við aðstæðum sem geta komið upp
 • Skoða ábendingar frá starfsfólki og nemendum með varfærni og af virðingu
 • Vera styðjandi og sýnilegir
 • Taka þátt í samstarfi og stuðla að góðum og öruggum vinnustað
 • Hver og einn ber ábyrgð á eigin hegðun og því að taka ekki þátt í einelti og öðru ofbeldi
 • Láta vita um neikvæð samskipti sem viðkomandi getur ekki leyst úr sjálfur eða hefur áhyggjur af
 • Vera reiðubúin/n til að skýra mál sitt nánar ef viðkomandi tikynnir um einelti eða annað ofbeldi

Grunur um einelti eða annað ofbeldi
Vakni grunur um einelti, áreitni eða ofbeldi eða aðstæður skapast sem ýtt geta undir slíka framkomu skal stjórnandi (kennari gagnvart nemendum) bregðast við því eins fljótt og unnt er. Allar ábendingar/kvartanir ber að taka alvarlega. Mikilvægt er að starfsfólk og nemendur láti skólastjórnendur strax vita komi upp neikvæð og erfið samskipti.

Hvað á að gera?
Tilkynningu um einelti er hægt að koma á framfæri með eftirfarandi hætti:
1. Senda ábendingu í gegnum hlekk á vef skólans – HÉR
2. Koma upplýsingum á framfæri munnlega við þann sem viðkomandi treystir best til að koma málinu í farveg þar sem í framhaldinu er unnið með það.
3. Hafa samband við náms- og starfsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðing/forvarnarfulltrúa í síma 4332519 eða í tölvupósti.

Varði málið nemendur er best að koma upplýsingunum til náms- og starfsráðgjafa eða kennara en annars til skólameistara eða trúnaðarmanna. Hægt er að hafa samband við skrifstofu skólans, sími 4332500, til að fá samband við einhvern framangreindra en einnig má nálgast upplýsingar um netföng á heimsíðu skólans.
Skólameistari setur á fót viðbragðsteymi sem heldur utan um málið, kannar það til hlítar og gerir áætlun um málsmeðferð, þ.m.t. mat á því sem um er að ræða, þ.e. hvort greint atvik falli undir skilgreiningu laganna á einelti, áreitni eða ofbeldi og gerir í því tilviki áætlun um aðgerðir, áætlun um eftirfylgni þar sem fylgst er með hvort ástandið batni og mat á árangri aðgerða. Batni ástandið ekki skal skoða aðrar aðgerðir, þ.m.t. mögulegan brottrekstur geranda. Ef niðurstaða greiningar er að um samskiptavanda sé að ræða en ekki einelti, áreitni eða ofbeldi í skilningi laganna, ber stjórnendum að greiða úr samskiptunum á grundvelli þess og gefa skýr skilaboð um kröfur til starfsfólks um samskipti á vinnustað.
Sjá nánar um viðbrögð í vinnulýsingum:
Vinnulýsing/verklag sem lýsir viðbrögðum gegn einelti – Nemendur
Vinnulýsing/verklag sem lýsir viðbrögðum gegn einelti – Starfsfólk

Skilgreiningar og birtingarmyndir
Einelti, áreitni, ofbeldi getur verið alls konar en er alltaf óviðeigandi hegðun sem er ekki liðin

Einelti – Síendurtekin hegðun sem er til þess fallin að valda vanlíðan, s.s. ítrekuð gagnrýni, útilokun o.fl. Gerendur geta bæði verið meðvitaðir eða ómeðvitaðir um að þeir taki þátt í einelti. Atferlið beinist gegn ákveðnum einstaklingi af hálfu annars einstaklings eða hópi. Ójafnvægi er milli geranda og þolanda sem upplifir sig vanmáttugan.
Kynbundin áreitni – Talsmáti eða framkoma sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, og misbýður virðingu viðkomandi (hefur þann tilgang að skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi).
Kynferðisleg áreitni – Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir verður, s.s. dónalegir brandarar, óviðeigandi snerting o.fl.
 Annað ofbeldi – líkamlegt eða andlegt. Hegðun sem leiðir til eða gæti leitt til sálræns eða líkamlegs skaða eða þjáningar. Um getur verið að ræða kynbundið ofbeldi, þ.e. ofbeldi á grundvelli kyns þolanda.

Hvað er ekki einelti? Ágreiningur vegna verkefna, ólíkra hagsmuna eða mismunandi skoðana telst ekki vera einelti. Ef slíkur ágreiningur magnast án þess að gripið sé inn í getur hann leitt til eineltis.
Hvað er ekki kynferðisleg áreitni? Grín og daður telst ekki vera kynferðisleg áreitni nema hegðunin sé óvelkomin og hvorki gagnkvæm né á jafnréttisgrundvelli.
Hverjir eru gerendur? Einelti, áreitni og annað ofbeldi getur verið af hálfu starfsfólks, nemenda, stjórnenda eða utanaðkomandi aðila sem tengjast skólanum.

Birtingarmyndir eineltis/ofbeldis geta verið margs konar, s.s. eftirfarandi:

 • Andlegt/félagslegt einelti: Baktal, slúður, útúrsnúningur, niðrandi ummæli og þöggun, útilokun eða höfnun frá félagahópi (fá ekki að vera með), augngotur, grettur, ósanngjörn gagnrýni á vinnubrögð, hótanir, valdníðsla.
 • Rafrænt einelti: Óvelkomin samskipti eða skilaboð í tölvupósti eða á samfélagsmiðli, bæði skrif og myndbirtingar (Facebook, Twitter, Snapchat, tölvupóstur og netsíður).
 • Efnislegt einelti: Skemmdir á eigum, s.s. fatnaði.
 • Líkamlegt ofbeldi: T.d. að slá, sparka eða hrinda.
 • Kynferðisleg áreitni: Orðbundin, táknræn eða líkamleg, s.s. dónalegir brandarar, kynferðislegar athugasemdir, augnagotur eða gláp, óviðeigandi snerting eða tilraunir til kynferðislegra athafna.
 • Neikvæð skírskotun til kyns, aldurs, trúarskoðana, kynhneigðar, kynþáttar o.s.frv.

Birtingarmyndir í framhaldsskóla eru aðallega af andlegum/félagslegum toga en rafrænt einelti hefur aukist mjög með tilkomu samskiptamiðla og getur verið mjög dulið.

Minnt er á að alvarleg tilvik kynferðislegrar áreitni eða ofbeldis geta fallið undir hegningarlög og skal tilkynna til lögreglu.

Vísbendingar um einelti/ofbeldi má stundum greina í afleiðinum þess
Afleiðingar eineltis, áreitni og annars ofbeldis geta birst á mismunandi hátt og einkennin verið bæði af líkamlegum og sálrænum toga. Hegðun þolanda kann að breytast, veikindafjarvistir aukast og afköst minnka. Verði þessar breytingar merkjanlegar hjá starfsfólki eða nemanda ber að ræða við viðkomandi og kanna hvað kunni að valda. Afleiðingar verða oft alvarlegri ef ekki er brugðist nógu snemma við. Þær geta varað lengi og jafnvel í mörg ár eftir að starfsfólk eða nemendur eru komnir úr þeim aðstæðum sem leiddu til þeirra.
Sálrænar afleiðingar geta t.d. birst í einbeitingarskorti, kvíða, þunglyndi, ótta, minnimáttarkennd eða minnkuðu sjálfsáliti, andúð á skóla eða vinnu, félagslegri einangrun, biturð, hefndarhug, örvæntingu, starfsþroti og jafnvel sjálfsvígshugsunum í alvarlegustu tilvikum.
Líkamlegar afleiðingar geta t.d. birst í höfuðverk, magaverk, svitaköstum, vöðvaverkjum, svefnleysi, sljóleika eða þreytutilfinningu, svima og hjartsláttartruflunum.
Afleiðingar fyrir aðra geta t.d. birst í því að fjölskylda þolanda verður fyrir miklu álagi vegna áhrifa eineltisins/ofbeldisins. Ef einelti/ofbeldi á vinnustað er látið viðgangast getur það haft áhrif á annað starfsfólk og mótað vinnuandann í átt til hins verra.
Verði starfsfólk, foreldrar/forráðamenn eða nemendur varir við að framangreind atriði eða önnur sambærileg valdi nemanda óþægindum eða vanlíðan, skal koma tilkynningu eða ábendingu til skólastjórnenda eða náms- og starfsráðgjafa svo hægt sé að vinna með málið.

Persónuverndarreglur
Við úrlausn eineltismála og annarra ofbeldismála gerir FVA sitt ýtrasta til að tryggja að gætilega sé farið með persónuupplýsingar og að meðferð þeirra sé í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga nr. 90/2018 og persónuverndarstefnu FVA. Eftirfarandi grundvallarreglur ráða því hvernig persónuupplýsingar vegna meints eineltis eða annarra ofbeldismála eru meðhöndlaðar hjá náms- og starfsráðgjafa og skólameistara FVA:

 • Nöfn og efni ábendingar/tilkynningar er skráð á pappír eða í aðgangsstýrða excelskrá.
 • Gögn á pappír eru vistuð í læstri hirslu hjá náms- og starfsráðgjafa eða hjá skólameistara en rafræn gögn í aðgangsstýrðri skrá. Gögn eru vistuð eins lengi og þörf er á eða lög kveða á um.
 • Upplýsingarnar eru aðeins notaðar í upprunalegum tilgangi, þ.e. til að greina og leysa meint einelti og aðgangur að gögnum er takmarkaður við þá sem vinna að rannsókn málsins. Gögn eru ekki afhent öðrum nema að beiðni viðkomandi og með ótvíræðu samþykki hans eða að skólinn beri lagalega skyldu til þess.

Minnt er á að FVA er afhendingarskyldur aðili til Þjóðskjalasafns skv. lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 og geymir því öll gögn fram að skilum til Þjóðskjalasafns í samræmi við settar reglur þar um.

Akranesi, 8. janúar 2019