Forvarnaráætlun

gegn einelti og öðru ofbeldi innan skólans

Samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 ber stjórnendum að tryggja gott vinnuumhverfi. Þá skal atvinnurekandi sjá til þess að gerð sé
skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, óháð stærð eða starfsmannafjölda, samanber reglugerð nr. 920/2006. Áhættumat starfa er hluti af slíkri áætlun.

Framkvæmd reglubundins áhættumats er liður í því að greina hættur á vinnustöðum og stuðla að vinnumenningu til að útrýma þeim. Slíkt mat nær einnig til áhættuþátta sem varða hegðun allra á vinnustað og samskipti. Áhættumat á að byggja á öllum tiltækum upplýsingum varðandi vinnustaðinn og vinnuaðstæður og þá er m.a. horft til eftirfarandi: Fjöldi starfsfólks, aldurssamsetning og kynjahlutfall, menningarlegur bakgrunnur, skipulag vinnutímans, vinnuálag, eðli starfa o.fl.

Í þessari áætlun er sjónum beint sérstaklega að forvörnum gegn einelti og öðru ofbeldi innan skólans á grundvelli framangreindra laga og reglugerðar nr. 1009/2015 . Stjórnandi verður að vera meðvitaður um aðstæður á vinnustað sem geta ýtt undir einelti, áreitni og annars konar ofbeldi, svo sem mikið vinnuálag, óskýrar starfslýsingar, ýmsar breytingar (s.s. samdráttur), upplýsingagjöf er ábótavant, samskiptavandi, skortur á umburðarlyndi og að ágreiningsmál eru ekki leyst fljótt. Umræða um einelti, áreitni og annað ofbeldi á vinnustað verður að vera opin. Skólameistari fer yfir stefnu skólans gegn einelti, áreitni og ofbeldi í upphafi skólaárs og minnir starfsfólk á skyldu þeirra til að upplýsa um slík tilvik á vinnustaðnum. Allar ábendingar/kvartanir ber að taka alvarlega og ber stjórendum að bregðast við eins fljótt og unnt er.

Fyrirbyggja má óviðeigandi hegðun á ýmsan hátt, t.d. með því að greina og fjarlægja áhættuþætti í félagslegu vinnuumhverfi, svo sem með því að taka strax á neikvæðu tali. Veita þarf reglulega fræðslu um einelti, áreitni og annars konar ofbeldi og leiðbeina starfsfólki og nemendum um hvernig þeir koma á framfæri upplýsingum um slíkt. Einnig þarf starfsfólk og nemendur að vita til hvaða aðgerða er gripið komi upp rökstuddur grunur einelti, kynbundna eða kynferðislega áreitni eða annað ofbeldi. Þessu eru gerð skil í viðbragðsáætlun FVA gegn ofbeldi sem er hluti af forvörnum. Þá er mikilvægt að stjórnandi sýni gott fordæmi og sýni samstarfsfólki tillitssemi og virðingu. Stjórnandi verður að vera vakandi fyrir samskiptum á vinnustaðnum og líðan starfsmanna. Hann er í lykilstöðu til að grípa inní og stöðva neikvæða framkomu á vinnustað og beina samskiptunum í jákvæðan farveg. Hver og einn starfsmaður leggur sitt að mörkum til að efla jákvæðan starfsanda og vinnustaðarmenningu sem byggist á góðum samskiptum, virðingu og umburðarlyndi gagnvart margbreytileika fólks.

Unnin er forvarnaráætlun til tveggja ára í senn, í fyrsta sinn í janúar 2019.

 Forvarnaráætlun 2019 (jan.) – 2020 (des.)  
 Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Að auka meðvitund starfsfólks og nemenda um áhættuþætti í félagslegu vinnuumhverfi og um viðbrögð gegn einelti.

Kynna stefnu og viðbragðsáætlun gegn einelti og öðru ofbeldi.

Kynna góðar samskiptareglur.

Skólameistari 

Árlega fyrir lok september.

 

 

Að bæta líðan starfsfólks og styðja við góð samskipti þeirra í milli og við nemendur og foreldra. Mótun og innleiðing samskiptasamnings/-sáttmála. Skólameistari  Fyrir lok maí 2019.
Að viðhalda meðvitund starfsfólks um góð samskipti á grundvelli samskiptasáttmála. Rifja upp samskiptasáttmálann og skerpa á mikilvægi góðra samskipta. Skólameistari  Fyrir lok október 2020.
Að nýta upplýsingar um viðhorf starfsfólks og nemenda til að bæta samskipti. Kynning á niðurstöðum SFR könnunar og drög lögð að umbótastarfi á sviðum þar sem þess er þörf skv. niðurstöðunum. Niðurstöður kennslukönnunar eru kynntar kennurum á einstaklingsgrunni. Skólameistari  Fyrir lok maí árlega.
Að greina áhættur í félagslega starfsumhverfinu samhliða mati á annarri áhættu í vinnuumhverfinu. Gera áhættumat starfa. Skólameistari  Fyrir lok maí 2020.