upplifir þú einelti?

Í skólanum eða vinnunni?

Stefna Fjölbrautaskóla Vesturlands Akranesi (FVA) gegn einelti, kynbundinni eða kynferðislegri áreitni eða öðru ofbeldi1

Hjá FVA sættum við okkur ekki við einelti, áreitni eða annað ofbeldi í skólanum, hvorki í hópi starfsfólks né nemenda. Slík hegðun lýsir ójöfnum leik þar sem einn eða fleiri fara ítrekað yfir persónleg mörk þolanda þannig að hann líður fyrir. Afstaða FVA er skýr, slíkt er ekki liðið í skólanum og brugðist við með afgerandi hætti komi slík mál upp. Skólinn á að vera góður vinnustaður þar sem starfsfólki og nemendum líður vel og býr við heilsusamlegt og öruggt vinnuumhverfi. Óviðeigandi hegðun eins og einelti, kynbundin eða kynferðisleg áreitni eða annað ofbeldi er vísbending um að eitthvað sé að í vinnuumhverfinu. Með viðbragðsáætlun gegn einelti og öðru ofbeldi og með innleiðingu á áætlun um forvarnir á vinnustaðnum til að fyrirbyggja einelti og annað ofbeldi leitast skólastjórnendur við að móta heilsusamlega menningu og gott vinnuumhverfi. Í þessari vinnu er leiðarljós starfsfólks, nemenda og stjórnenda skólans eftirfarandi, stutt í verki með einkunnarorðum FVA, jafnrétti, virðing og fjölbreytileiki:

  • Starfsfólk og nemendur sýna hvert öðru kurteisi og virðingu í samskiptum
  • Tekið er vel á móti nýjum nemendum og nýju starfsfólki
  • Starfsfólk og nemendur sýna umburðarlyndi og líða ekki fordóma
  • Einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni og annað ofbeldi er undir engum kringumstæðum umborið
  • Markvisst er tekið á vandamálum sem koma upp
  • Fylgt er fyrirliggjandi viðbragðsáætlun og vinnulýsingu þegar slík mál koma upp
  • Fylgt er forvarnaráætlun sem tengist vinnuvernd og vinnuaðstæður og starfsánægja metin reglubundið

 

Akranesi 7. janúar 2019

 

1Stefna þessi ásamt viðbragðsáætlun FVA gegn einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi, vinnulýsing fyrir viðbragðsáætlun, forvarnaráætlun og kynningarblað fyrir nemendur og starfsfólk byggir á skyldu atvinnurekenda til að huga að forvörnum gegn einelti, kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi á vinnustað og bregðast við komi slíkt upp. Við mótun stefnunnar og viðbragðsáætlunar auk annarra skjala var horft til eftirfarandi laga og reglna: Lög nr. 26/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum; reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum; reglugerð nr. 326/2016 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í framhaldsskólum; stjórnsýslulög nr. 27/1993; upplýsingalög nr. 140/2014; lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 auk ákvæða stjórnsýslulaga, s.s. um leiðbeiningarskyldu, málshraða, rannsóknarreglu, jafnræðisreglu, meðalhófsreglu, andmælarétt og að upplýsa aðila máls um meðferð þess.