Vinnulag /Verklag

sem lýsir viðbrögðum gegn einelti – Starfsfólk

Hér er lýst verklagi sem er fylgt þegar fram kemur ábending eða tilkynning vegna eineltis í skólanum en við meðferð meints eineltis eða annars ofbeldis ber að hafa í huga lagaumgjörð rannsókna á meintu einelti s.s. lög nr. 26/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum; reglugerð nr. 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum; stjórnsýslulög nr. 27/1993; upplýsingalög nr. 140/2014; lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 auk ákvæða stjórnsýslulaga, s.s. um leiðbeiningarskyldu, málshraða, rannsóknarreglu, jafnræðisreglu, meðalhófsreglu, andmælarétt og að upplýsa aðila máls um meðferð þess.

Verklagið felur í sér vinnulýsingu fyrir röð aðgerða sem þarf að framkvæma og er til stuðnings stefnu FVA gegn einelti, kyndbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru ofbeldi, dags. 7. janúar 2019.

Komi upp einelti eða grunur um einelti í skólanum eða á viðburðum sem haldnir eru utan skólans en á hans vegum, skal þolandi eða sá er þess verður var tilkynna það á þar til gerðu eyðublaði: Tilkynning – grunur um einelti eða annað ofbeldi. Einnig má koma tilkynningu í gegnum hlekk á heimasíðu skólans eða koma henni á framfæri munnlega. Sjá nánar á heimasíðu: Upplifir þú einelti í skólanum/vinnunni? og Viðbragðsáætlun FVA gegn einelti og öðru ofbeldi

Aðgerð  Úttak Vinnulýsing
BYRJAR
1. a Meintur þolandi eða þriðji aðili leggur fram ábendingu/kvörtun/tilkynningu til skólameistara vegna samstarfsfólks eða nemanda. Treysti hann sér ekki til þess að leita til skólastjórnenda getur hann leitað til starfsfélaga sem hann treystir, trúnaðarmanns, öryggistrúnaðarmanns eða stéttarfélags. Eyðublaðið Tilkynning – grunur um einelti eða annað ofbeldi.
Ef tilkynning er munnleg skráir viðtakandi hana á þar til gert eyðublað (Tilkynning (um grun) um einelti) og kemur til skólameistara sem vistar hana.

 1. a Skólameistari tekur við ábendingunni, og skráir; hann á samráð við aðstoðarskólameistara og verkefnastjóra mannauðsmála eða setur á fót eineltisteymi til að gera drög að áætlun um aðgerðir og eftirfylgni.

Huga þarf að öryggi tilkynnanda.

Ef málið varðar refsiverða háttsemi er því vísað til lögreglu.

1. b Meintur þolandi leggur fram kvörtun vegna einstaklings sem er ekki starfsmaður FVA en samskiptin eru í tengslum við starfsemi skólans. Skólameistari skráir kvörtunina og vistar; hann skráir jafnframt og vistar málalyktir.

1. b Skólameistari hefur athugun á málsatvikum og grípur til aðgerða (breytinga) sem eru til þess fallnar að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.

Huga þarf að öryggi starfsmanns.

Ef málið varðar refsiverða háttsemi er því vísað til lögreglu.

2. Skólameistari/viðbragðsteymi greinir málið á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga.

 

Gerð er áætlun fyrir málsmeðferð – sjá í dálkinum Vinnulýsing.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ljúki málinu á þessu stigi er gerð áætlun fyrir eftirfylgni og mat á árangri aðgerða.

Skriflegt minnisblað, staðfest af hlutaðeigandi – vistað hjá skólameistara.

Aðgangur að gögnum er bundinn við þá sem vinna að rannsókn málsins.

2. Rætt er við þolanda og í samráði við hann ákveðið hvort óformleg málsmeðferð á við eða hvort málið krefst formlegrar málsmeðferðar á grundvelli laga nr. 26/1980.

Rætt er við meintan geranda (viðtal er tekið við einn í einu), nákvæmari lýsingar fengnar á málsatvikum og upplifun hans af þeim.

Huga þarf að undirliggjandi orsakaþáttum.

Mögulega þarf að ræða við vitni ef um þau er að ræða og afla upplýsinga frá þeim um þeirra upplifun af atvikum. Skrá þarf frásögn vitna.

Ef niðurstaða greiningar er að um samskiptavanda sé að ræða en ekki einelti, áreitni eða ofbeldi í skilningi laganna, ber stjórnendum að greiða úr samskiptunum og gefa skýr skilaboð um kröfur til starfsfólks um samskipti á vinnustað.

Málið mögulega leyst í kjölfarið, t.d. með sáttamiðlun, eftir atvikum með utanaðkomandi ráðgjafa.

Markviss eftirfylgd og eftirlit með aðilum; líðan þolanda könnuð reglulega.

3. Unnið er áfram með málið hafi það ekki verið leyst og gerð er ítarlegri áætlun um málsmeðferð, sjá í Vinnulýsingu fyrir lið 4 um Mögulegar aðgerðir. Skriflegt minnisblað, staðfest af hlutaðeigandi – vistað hjá skólameistara.

3. Aðgerðir í framhaldinu taka mið af alvarleika kvörtunar og því hvort um er að ræða nýtt mál eða ekki.

Leiði greining í ljós að um sé að ræða einelti eða annað ofbeldi í skilningi laganna er fenginn utanaðkomandi ráðgjafi að borðinu til að leggja mat á og taka ákvörðun um afleiðingar fyrir geranda.

Tilkynning til lögreglu ef um refsiverða háttsemi er að ræða – öðrum kosti sjá lið 4 í Vinnulýsingu.

Allt er skráð og hlutaðeigandi starfsfólki og öryggistrúnaðarmanni haldið upplýstum á meðan á málsmeðferð stendur.

4. Mögulegar aðgerðir. Skriflegt minnisblað, skýrsla, bréf – vistað í málaskrá skólans. 4. Sáttamiðlun, skrifleg áminning sbr. 21. gr. starfsmannalaga nr. 70/1996, breytingar á starfi sbr. 19. gr. sömu laga (tímabundnar eða varanlegar) eða brottvikning úr starfi láti gerandi ekki af hegðun sinni.
5. Eftirfylgd – ítarleg áætlun.  Skriflegt minnisblað þar sem eftirfylgd er skráð skv. áætlun – vistað í málaskrá skólans. 5. Skilgreina markvissa eftirfylgd, s.s. stuðning við þolanda, mat á hvort breytinga á vinnustaðnum er þörf til að draga úr líkum á áframhaldandi hegðun, hvað í henni felst, hver sinnir henni og í hve langan tíma.

6. Máli lokið með formlegum hætti.

Mat á árangri aðgerða.

Skriflegt minnisblað um niðurstöður og eftirfylgd. Undirritað af hlutaðeigandi. Gögn vistuð í málaskrá.

6. Skólameistari kynnir hlutaðeigandi niðurstöðu málsins.

Markviss eftirfylgd við þolendur og fylgst með framvindu (skilgreina tímaramma), unnið skv. forvarnaráætlun til að bæta menninguna og fyrirbyggja einelti og annað ofbeldi meðal starfsfólks.

Skilgreina tíma fyrir mat á árangri og nýta niðurstöður til lærdóms; á grundvelli þess getur komið til endurskoðun á viðbragðsáætlun og vinnulýsingu.

ENDIR

Vinnulýsinguna og verklag hér að ofan þarf að endurskoða reglulega og endurbæta í samræmi við reynslu af fyrri eineltismálum.

Skólastjórnendur vinna að forvörnum á vinnustaðnum, í samstarfi við starfsfólk og nemendur.

Ítrekað er að allar upplýsingar um mál eru meðhöndlaðar sem trúnaðarmál og skrifleg gögn vörsluð á öruggum stað í samræmi við persónuverndarreglur, sbr. upplýsingar í kaflanum Persónuverndarreglur í Viðbragðsáætlun FVA gegn einelti og öðru ofbeldi.