fbpx

Mannauðs­stefna FVA

Ein af helstu forsendum góðs árangurs í skólastarfi er fjölhæft og áhugasamt starfsfólk sem leggur sig fram við að gera skólann að lifandi lærdómssamfélagi. Gildi FVA, jafnrétti, virðing, fjölbreytileiki eru sprottin úr slíkum jarðvegi, sameiginleg öllum sem þar starfa, bæði starfsfólki og nemendum.

Mannauðsstefna FVA á rót í gildunum auk laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, kjarasamninga (þar m.t. stofnanasamninga) og starfslýsinga skólans. Hún tekur einnig mið af ákvæðum vinnuverndarlaga nr. 46/1980, reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum nr. 1009/2015, jafnréttislaga nr. 10/2008 og jafnlaunastefnu FVA. Mannauðsstefnan byggir á því að við skólann starfi hæfileikaríkt og öflugt starfsfólk með viðeigandi menntun sem dafnar í starfi. Stefnunni er ætlað að stuðla að góðum starfsskilyrðum, vellíðan í starfi og góðum starfsanda, meðal annars á grundvelli lýðræðislegra vinnubragða sem stuðla að samræðu, jafnræði og gagnsæi í öllum ákvörðunum.

Í mannauðsstefnunni er fjallað um ráðningar og móttöku nýs starfsfólks, starfskjör, heilsu og líðan, samskipti, samvinnu og liðsheild, áskorun og vöxt í starfi, endurgjöf og hvatningu og starfslok.

Starfsfólk skólans kappkostar að sinna starfi sínu af alúð og metnaði og skapa gott og hvetjandi námsumhverfi. Stjórnendur skólans kappkosta að tryggja gott upplýsingaflæði, skýrar boðleiðir og að afgreiðsla mála fari í réttan farveg. Þeir leitast við að vera til staðar fyrir starfsfólk, hlusta og aðstoða við lausn ágreiningsmála og gæta sanngirni og jafnræðis í niðurstöðu um álitamál. Áhersla er lögð á lýðræðislega stjórnunarhætti, fagmennsku, notalegt andrúmsloft og virkt félagslíf.

Mannauðsstefnan miðar að því að gera FVA að góðum vinnustað þar sem gildi skólans eru höfð í heiðri og gleðin ræður ríkjum.

Ráðningar og móttaka nýliða

Við leggjum áherslu á að

  • ráða dugmikið starfsfólk með viðeigandi menntun, reynslu, hæfni og metnað
  • ráða starfsfólk á grundvelli stefnu og þarfa skólans til lengri og skemmri tíma
  • starfsmannahópurinn sé fjölbreyttur
  • ráðningarferlið sé faglegt og þar sé farið að lögum og reglum hins opinbera
  • stöðuveitingar séu á jafnréttisgrundvelli og að einstaklingum sé ekki mismunað á grundvelli ómálefnalegra þátta með vísan til jafnréttisáætlunar
  • standa vel að móttöku nýrra starfsmanna með fræðslu og stuðningi

Starfskjör

Við leggjum áherslu á að

  • launakjör séu ákveðin á grundvelli kjarasamninga og stofnanasamninga
  • laun og önnur starfskjör byggi á jafnlaunastefnu FVA og feli ekki í sér kynjamismunun
  • starfsmaður njóti sveigjanleika til starfsþróunar á sínu fagsviði í samráði við stjórnendur
  • vinnuaðstaða og tækjakostur sé í samræmi við þarfir og viðfangsefni starfs
  • möguleiki sé á sveigjanlegum vinnutíma eins og verkefni starfsins leyfa

Heilsa og líðan

Við leggjum áherslu á

  • vellíðan starfsmanna í starfi
  • stuðning við heilbrigða og holla lífshætti
  • að starfsmenn upplifi jafnvægi milli fjölskylduábyrgðar og starfs
  • að sýna starfsfólki umhyggju og stuðning
  • virka viðbragðsáætlun við áföllum

Samskipti, samvinna og liðsheild 

Við leggjum áherslu á

  • jákvæð og uppbyggileg samskipti sem styðja við hugarfar grósku
  • starfsgleði og góðan starfsanda
  • lýðræðislega þátttöku starfsmanna í uppbyggingu og mótun FVA
  • gagnsæi og greiða upplýsingamiðlun
  • að einelti, kynbundin og kynferðisleg áreitni sé ekki liðin
  • starfsumhverfi sem einkennist af fagmennsku, heiðarleika og virðingu

Starfsþróun

Við leggjum áherslu á

  • að starfsfólk sinni starfsþróun, þróist og eflist í starfi og geti þannig tekist á við nýjar áskoranir/verkefni í starfinu
  • skapandi teymisvinnu á sem flestum sviðum skólastarfsins

Endurgjöf

Við leggjum áherslu á

  • starfsmannasamtöl og eftirfylgni við þau
  • að beita endurgjöf til leiðbeiningar
  • að hrósa fyrir það sem vel er gert

Starfslok

Við leggjum áherslu á að

  • gæta að fagmennsku og umhyggju við starfslok starfsmanna
  • öllum starfsmönnum gefist kostur á starfslokaviðtali hjá skólameistara

Mannauðsstefnan verður endurskoðuð eftir þörfum.

Akranesi 19. apríl 2021

Steinunn Inga Óttarsdóttir,

skólameistari

 

Hér má sækja Mannauðsstefnu FVA á pdf-formi