Persónuvernd
PERSÓNUVERNDARSTEFNA FJÖLBRAUTASKÓLA VESTURLANDS
FVA leggur áherslu á að tryggja áreiðanleika, trúnað og öryggi persónuupplýsinga sem skólinn vinnur með og kappkostar að öll vinna með persónuupplýsingar innan skólans fari fram í samræmi við ákvæði laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
FVA hefur mótað persónuverndarstefnu sem hér er lýst og hefur að markmiði að auðvelda þeim sem hana lesa að átta sig á hvaða upplýsingum skólinn safnar um einstaklinga, í hvaða tilgangi og hvað gert er við þær. Einnig er lýst rétti einstaklings varðandi persónuupplýsingar og skýrt hvert hann getur leitað ef hann óskar eftir upplýsingum eða þykir á sér brotið.

Persónuverndarfulltrúi - tengiliður
Persónuverndarfulltrúi FVA tekur á móti erindum um hvaðeina er varðar persónuupplýsingar og meðferð þeirra. Hann er til staðar komi upp álitaefni á sviði persónuverndar, hlutast til um þjálfun starfsfólks og framkvæmir úttektir. Hann er tengiliður við Persónuvernd og vinnur með henni. Hægt er að hafa samband við persónuverndarfulltrúa í síma 433 2500 eða senda tölvupóst á netfangið personuvernd@fva.is. Þá er hægt að senda póst merktan persónuverndarfulltrúa til FVA, Vogabraut 5, 300 Akranes.
Leitast er við að bregðast við öllum fyrirspurnum innan mánaðar frá viðtöku þeirra. Sé um að ræða umfangsmikla eða flókna beiðni mun FVA upplýsa um að ekki verði brugðist við beiðni innan framangreindra tímamarka. Ætíð skal leitast við að svara innan þriggja mánaða frá viðtöku á beiðni.
Persónuverndarfulltrúi FVA frá 1. ágúst 2024 er Berglind Ósk Þ. Þórólfsdóttir.