fbpx

Skólasóknarreglur

Skólanámskrá FVA

Nemendur skulu sækja allar kennslustundir samkvæmt stundatöflu sinni og koma stundvíslega til kennslu.

Eftirfarandi reglur gilda um skráningu fjarvista, viðurlög við þeim og einkunn fyrir skólasókn:

 1. Ef nemandi er fjarverandi úr kennslustund, eða mætir eftir að 15 mínútur kennslustundar eru liðnar, skrifar kennari F í kladda. Komi nemandi of seint, þ.e. eftir að kennari hefur lokið við að skrá viðveru, en þó áður en 15 mínútur eru liðnar skrifar kennari S. Sambærilegar reglur gilda yfirgefi nemandi kennslustund áður en henni er lokið. Þrjú S jafngilda einu F.
 2. Nemandi, sem ekki hefur mætt í kennslustund, getur ekki farið fram á að fá kennslu í því efni sem búið er að fara yfir.
 3. Ef annað er ekki tekið sérstaklega fram í námsáætlun getur nemandi átt von á því að vera skráður úr áfanga ef fjarvistir í honum eru fleiri en sem svarar kennslu í eina og hálfa viku (t.d. meira en 6 skipti í áfanga sem er kenndur 4 sinnum í viku).
 4. Kennurum er heimilt að setja reglur um mætingu og aðra ástundun í námsáætlanir einstakra áfanga. Í þeim tilvikum skal koma fram hvaða afleiðingar það hefur fyrir nemandann fari hann ekki að reglum áfangans.
 5. Veikindi og önnur forföll skal tilkynna í gegnum Innu eða á skrifstofu skólans samdægurs. Nemanda ber að tilkynna forföll fyrir klukkan 10:00 hvern virkan dag sem forföll vara. Veikindi sem vara skemur en einn dag er ekki hægt að tilkynna rafrænt en nemandi getur gert grein fyrir þeim á skrifstofu skólans.
 6. Forföll vegna heimsókna til lækna eða annarra sérfræðinga á heilbrigðissviði sem vara skemur en einn skóladag er hægt að tilkynna á skrifstofu. Slíkri tilkynningu skal fylgja vottorð eða dagsett kvittun frá heilbrigðisstofnun.
 7. Ef forföll vegna veikinda eru samtals meira en sem svarar tveim vikum getur skólameistari krafist þess að veikindaforföll verði eftirleiðis staðfest með vottorði frá lækni.
 8. Ef nemandi gerir grein fyrir öllum veikindaforföllum í samræmi við 3. og 4. grein hér að ofan þá valda veikindi því ekki að hann fái lægri einkunn en 7 fyrir skólasókn. (Veikindi eru dregin frá upp að 93%).
 9. Einkunn er gefin fyrir skólasókn og birtist hún í námsferli nemenda og á útskriftarskírteini. Skólasóknareinkunn ræðst af skólasókn samkvæmt töflunni hér fyrir neðan. Nemandi í fullu námi (24 kennslustundum eða meira) sem nær 9 eða 10 í skólasóknareinkunn fær 1 einingu á fyrsta þrepi sem er færð inn í námsferil hans við lok annar.
  Frá 98% upp í 100% gefur einkunnina 10
  Frá 96% upp að 98% gefur einkunnina 9
  Frá 94% upp að 96% gefur einkunnina 8
  Frá 92% upp að 94% gefur einkunnina 7
  Frá 90% upp að 92% gefur einkunnina 6
  Frá 88% upp að 90% gefur einkunnina 5
  Frá 86% upp að 88% gefur einkunnina 4
  Frá 84% upp að 86% gefur einkunnina 3
  Frá 82% upp að 84% gefur einkunnina 2
  Skólasókn undir 82% gefur einkunnina 1
 10. Sé skólasóknareinkunn lægri en 5 á nemandi ekki vísa skólavist á næstu önn.
 11. Sé um langvarandi veikindi nemanda að ræða skal hafa samband við náms- og starfsráðgjafa. Hafa skal samband við náms- og starfsráðgjafa í upphafi hverrar annar og fylgja fyrirmælum um regluleg samskipti á önninni.
 12. Í sumum verklegum áföngum og áföngum án lokaprófs er gerð krafa um viðveru og þeim er ekki hægt að ljúka ef forföll eru umfram tilskilið hámark sem er tilgreint í námsáætlun.