fbpx

2.5 Skólareglur

Skólanámskrá FVA

Skólareglur í FVA fjalla um samskipti og byggja á gagnkvæmri virðingu nemenda, kennara og annars starfsfólks. Auk þess hvetja þær til góðrar umgengni, tillitssemi og umburðarlyndis.

Það er stefna FVA að stuðla að því að allir sem þar starfa, nemendur, kennarar og annað starfsfólk, umgangist hver annan af kurteisi og tillitssemi. Nemendur og aðrir sem leita eftir þjónustu skrifstofu, bókasafns, heimavistar, stoðþjónustu og mötuneytis eiga að mæta góðu og vinsamlegu viðmóti. Á sama hátt ætlast skólinn til þess að allir þeir sem leita eftir þjónustu geri það á kurteislegan hátt og sýni skilning og biðlund ef ekki er hægt að sinna erindum þeirra samstundis.

Um skólareglur, breytingar á þeim, undanþágur frá þeim og viðurlög við brotum (öðrum en brotum á skólasóknarreglum) er fjallað í skólaráði. Það er skipað tveim fulltrúum nemenda, tveim kennurum, skólameistara og aðstoðarskólameistara.

Áður en brot á skólareglum eða önnur mál sem varða einstaka nemendur eru tekin til umfjöllunar í skólaráði eru nemendur sem í hlut eiga og forráðamenn þeirra ef þeir eru yngri en 18 ára, látnir vita að áminning sé fyrirhuguð og um andmælarétt. Að loknum skólaráðsfundi um málið tilkynnir skólameistari þeim skriflega um niðurstöðu skólaráðs og hvort andmæli séu tekin til greina.

 

Skólareglur og viðurlög við broti

 1. Þeir sem þiggja skólavist í Fjölbrautaskóla Vesturlands gangast með því undir þær reglur sem þar gilda, m.a. um skólasókn og námsframvindu og hlíta viðurlögum við brotum á þeim.
 2. Nemendur skulu sýna skólasystkinum sínum og starfsfólki skólans tillitssemi og kurteisi í daglegum samskiptum.
 3. Komið skal fram við alla af kurteisi og virðingu, nemendur og starfsfólk. Verði nemandi eða starfsfólk vart við einelti, tilraun til eineltis eða annars ofbeldis, ber viðkomandi að láta náms- og starfsráðgjafa eða stjórnendur vita af því strax. Einnig er hægt að tilkynna um slíkt á heimasíðu skólans. Náms- og starfsráðgjafar og stjórnendur  vinna í samræmi við verklagsreglur þar um í gæðahandbók. 
 4. Nemendur bera ábyrgð á að stunda nám sitt samkvæmt námsáætlunum og fyrirmælum kennara og ekki valda truflun í skólastarfinu.
 5. Nemendum ber að ganga vel um húsnæði, tæki og annan búnað skólans.
 6. Neysla áfengis og annarra vímuefna er bönnuð í skólanum og á samkomum og ferðalögum á hans vegum. Í slíkum tilvikum er haft samband við forráðamann. Brot á þessari reglu varðar ávallt skriflegri áminningu.
 7. Reykingar eru óheimilar í skólanum og á lóð hans, þ.m.t. heimavist. Sama gildir um rafrettur og nikótínnotkun, t.d. í formi nikótínpúða og munntóbaks.
 8. Neysla matar og drykkja er bönnuð í kennslustofum.
 9. Ekki má festa upp auglýsingar eða dreifa prentuðu efni í skólanum nema með leyfi skólameistara.
 10. Brot nemenda á skólareglum getur leitt til brottvísunar úr skóla að undangenginni skriflegri áminningu. Nemandi sem brýtur almenn hegningarlög í skólanum getur átt von á tafarlausri brottvísun úr skóla. Ef ágreiningsmál eða brot á skólareglum koma upp skal aðstoðarskólameistari skrá málsatvik, ræða við málsaðila og upplýsa jafnframt forráðamenn ólögráða nemenda um málið og andmælarétt þeirra ef áminning er fyrirhuguð. Í skriflegri áminningu felst kostur á gefa nemendum kost á að bæta ráð sitt. Við þriðju áminningu á yfirstandandi skólaári er nemanda vísað úr skóla.
 11. Til viðbótar við þessar reglur gilda ýmis ákvæði um félagslíf nemenda sem skráð eru í handbók nemendafélagsins (NFFA).