fbpx

sKÓLANÁMSKRÁ

Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi (FVA) er bók- og verknámsskóli sem þjónar nemendum úr nágrannasveitarfélögum á Vesturlandi. Við skólann er starfrækt heimavist með plássi fyrir 60 nemendur og mötuneyti fyrir nemendur og starfsfólk. Gildi skólans eru jafnrétti, virðing, fjölbreytileiki og áhersla er lögð á lýðræðislega stjórnunar- og kennsluhætti.

Skólanámskrá FVA byggir á aðalnámskrá frá 2011 með breytingum frá 2015 og lögum nr. 92 frá 2008. Skólanámskrá er endurskoðuð reglulega með það að markmiði að tryggja ávallt gæði menntunar, í samræmi við aðalnámskrá og heimsmarkmið SÞ. Í skólanámskrá er m.a. fjallað um skólastarfið, námsframboð og skipulag náms, réttindi, ábyrgð og skyldur, samskipti og reglur til upplýsingar fyrir alla hagaðila. Einnig er fjallað um áherslur í starfi skólans, stjórnun, nefndir og ráð, samstarf við innlenda og erlenda aðila, húsnæði og aðbúnað og um félagsstarf nemenda á vegum skólans. Inntökuskilyrði, námsbrautalýsingar og áfangalýsingar í boði hverju sinni eru hluti af  skólanámskrá og eru birtar á vef skólans, www.fva.is.

Skólinn starfar samkvæmt áfangakerfi. Skólaárið samanstendur af tveimur jafngildum önnum sem lýkur með námsmati. Almennt er miðað við að nemendur ljúki  stúdentsprófi á þremur árum. Í bóknámi er hægt að stunda nám á framhaldsskólabraut og þremur stúdentsbrautum með mismunandi sérsviði. Einnig er í boði starfsbraut fyrir nemendur með metnar sérþarfir. Í verknámi er hægt að leggja stund á vélvirkjun, húsasmíði og rafvirkjun í dagskóla og dreif- og helgarnám í vélvirkjun, húsasmíði og á sjúkraliðabraut. Allar verknámsbrautir eru 5-6 annir auk starfsþjálfunar á vinnustað sem unnin er skv. ferilbók í INNU. Nemendur velja sjálfir áfanga á hverri önn í INNU í samráði við áfangastjóra og náms- og starfsráðgjafa. Nemendur hafa aðgang að námsáætlun, stundatöflu og bókalista í INNU. Kennslustundir eru 50 eða 55 mínútur, tvöfaldur tími (105 mínútur) er einu sinni í viku í hverjum áfanga.

Leitast er við að hafa námsmat fjölbreytt í anda gilda skólans. Um miðja önn fer fram leiðbeinandi miðannarmat og í lok annar eru námsmatsdagar. Sérstaða FVA meðal framhaldsskóla hér á landi felst m.a. í breiðu námsframboði, sterkum tengslum við samfélag, skóla og atvinnulíf, bæði á svæðinu, á landsvísu og utanlands, notalegu andrúmslofti og persónulegri þjónustu við nemendur auk stuðnings við afreksíþróttir í samstarfi við Akraneskaupstað og íþróttafélögin á svæðinu.

Skólanámskrá þessi tekur gildi 26. júní 2023.

 

Akranesi, 20. júní 2023.

Steinunn Inga Óttarsdóttir, skólameistari

Hægt er að hlaða niður skólanámskránni á pdf-formi hér að neðan.