fbpx

Saga skólans

Sumarið 1977 var gerður samningur milli Akraneskaupstaðar og menntamálaráðuneytisins um stofnun framhaldsskóla á Akranesi. Skólinn hlaut nafnið Fjölbrautaskólinn á Akranesi. Fyrsti skólameistarinn, Ólafur Ásgeirsson, setti skólann 12. september 1977. Allt nám í skólanum var frá fyrsta degi skipulagt í áfangakerfi og haustið 1978 kom út fyrsta útgáfa námsvísis í samstarfi við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Flensborgarskólann í Hafnarfirði.

Tímamót í skólamálum

Stofnun Fjölbrautaskólans á Akranesi markaði tímamót í skólamálum á Vesturlandi. Mestu breytti skólinn aðstöðu Akurnesinga til framhaldsnáms en einnig annarra íbúa á svæðinu. En mikil undirbúningsvinna hafði átt sér stað áður en þessi draumur varð að veruleika. Þann 31. október 1976 var haldin ráðstefna þar sem skipst var á skoðunum um það hvort ætti yfirhöfuð að stofna fjölbrautaskóla á Akranesi. Flestir frummælendur voru hlynntir því en nokkrir höfðu miklar efasemdir og höfðu áhyggjur af því að slíkur skóli gæti orðið of stór og efuðust jafnvel um að nám þar yrði tekið gilt.

Hinn nýi skóli tók við húsnæði og hlutverki Gagnfræðaskólans og Iðnskólans á Akranesi. Fyrsta vetur Fjölbrautaskólans á Akranesi voru um 180 nemendur í framhaldsnámi og samhliða annaðist skólinn kennslu í 7., 8. og 9. bekk grunnskóla. Níundi bekkur dvaldi lengst grunnskóladeildanna í Fjölbrautaskólanum eða til vorsins 1986. Tvo síðustu vetur 9. bekkjar í Fjölbrautaskólanum var gerð tilraun með samþættingu náms á grunn- og framhaldsskólastigi. Var tilraunin gerð í samvinnu við menntamálaráðuneytið. Fengu nemendur að sleppa samræmdum prófum en gátu hafið framhaldsnám í tilteknum námsgreinum um áramót. U.þ.b. þriðjungur nemenda lauk einhverjum áföngum framhaldsskólans.

Árið 1995 fól menntamálaráðherra Fjölbrautaskólanum að annast skólahald í Reykholti. Þar var mótað eins vetrar nám með áherslu á almennan undirbúning, námsráðgjöf og stuðning við nemendur í námsvanda. Tilraunin stóð í 2 ár en lauk formlega vorið 1997.

Fyrsta skóflustungan

Upphaf byggingasögu skólans má rekja til ársins 1957 en þá var fyrsta skóflustungan tekið að nýbyggingu Gagnfræðaskóla Akraness. Hún var tekin í notkun árið 1962. Þegar nemendum fjölgaði var byggt við skólann svokallað Ormarshús (eftir arkitektinum Ormari Þór Guðmundssyni), opnað haustið 1974 en er núna oftast nefnt B-álma í daglegu tali. Síðan hafa risið við skólann álma með kennslustofum og þjónustubygging. Sá hluti þjónustubyggingar sem tilheyrir bókasafninu var ekki tekin í notkun fyrr en 2001. Fyrir framan aðalinngang skólans er skúlptúr sem heitir Skutlan, eftir Guttorm Jónsson frá 1993, og heitir kvikmyndaklúbbur í skólanum eftir þessu listaverki.

Kennsla hófst í nýju húsi málmiðngreina árið 1983 og heimavistin opnaði ári síðar. Á árunum 2004-2005 var D-álman tekin í notkun (sem snýr að Vallholti). Verkstæði fyrir húsasmíðabraut var byggt við elstu álmu gamla gagnfræðaskólans 2007. Yfir aðalinnganginum er bogi, hannaður af Magnúsi H. Ólafssyni arkitekt og velunnara skólans. Steingrímur Benediktsson, kennari í FVA, segir svo frá í afmælisriti FVA frá 2017:

Allir eiga menntavegirnir það sameiginlegt að byrja bratt. Raunar er leiðin inn um aðalinnganginn undir hinn táknræna sigurboga auðfarin. Þar fyrir innan er gríðarhár, breiður og brattur stigi sem fólk sem á erindi við kerfið verður að klífa. Þessi stigi er táknrænn fyrir nemendur sem byrja sína skólagöngu. Þeim er ætlað að finna það að erfiðið sem þeir leggja á sig við námið skili að lokum árangri. Eftir erfiðið við að komast upp stigann, ná þeir nýjum hæðum og ljúka námi með því að tylla táknrænni húfu á koll. Frumlega þenkjandi mönnum datt nefnilega í hug að koma afgreiðslu skólans fyrir þarna uppi með stjórnendaálmu og aðstöðu fyrir kennara, vinnuherbergi og kennarastofu.

Fjör í Fjölbraut

Nemendur í skólanum árið 1977 voru 180 talsins og voru orðnir um 500 tíu árum síðar. Á árunum 1977-1987 luku 740 nemendur burtfararprófi frá skólanum á yfir 30 námsbrautum. Á 20 ára afmæli skólans árið 1997 voru brautskráðir nemendur orðnir yfir 1800. Fjöldi nemenda skólans hefur verið nokkuð breytilegur frá önn til annar en var mestur rúmlega 700 í kringum aldamótin 2000. Árið 2020 voru ársnemendur um 440 talsins og fer fjölgandi í takt við stækkandi bæjarfélag á Akranesi.

FVA frá 1987

Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi var stofnaður formlega 6. febrúar 1987 og settur í fyrsta sinn þann sama dag. Þá tók gildi samningur 32ja sveitarfélaga á Vesturlandi um rekstur sameiginlegs framhaldsskóla í samvinnu við menntamálaráðuneytið. Áður en skólinn var stofnaður hafði verið víðtækt samstarf milli Fjölbrautaskólans, framhaldsdeilda grunnskóla á Vesturlandi og Héraðsskólans í Reykholti. Það samstarf hafði að leiðarljósi að samræma kennslu og námskröfur á milli skólanna.

Samningurinn frá 1987 hefur tekið nokkrum breytingum í gegnum árin m.a. vegna breytinga á lögum um framhaldsskóla. Hann var endurnýjaður í janúar 1992 og síðan endurskoðaður á ný 1997 og undirritaður eftir þá endurskoðun í maí 1998. Sveitarfélögunum er standa að skólanum hafði þá fækkað vegna sameiningar úr 32 í 17. Síðan hafa sveitarfélög á Snæfellsnesi stofnað sinn eigin framhaldsskóla og Borgnesingar einnig og hinum sveitarfélögunum enn fækkað. Þegar samningurinn var endurnýjaður í maí 2011 stóðu að honum sex sveitarfélög: Akraneskaupstaður, Borgarbyggð, Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Hvalfjarðarsveit og Skorradalshreppur.

Að mennta og menntast

Á 25 ára afmæli skólans árið 2002 var gefið út afmælisrit og þar segir Þórir Ólafsson, fyrrverandi skólameistara FVA, um samruna Gagnfræða- og Fjölbrautaskólans:

Það voru mörg ljón á veginum og verkefnið í raun risavaxið. Fáir þekktu áfangakerfið. Það þurfti að sameina tvær rótgrónar menntastofnanir. Námsefni vantaði víða. Námskrár lágu ekki fyrir. Húsnæði var mjög þröngt og tækjakostur fábreyttur. Það þurfti að taka upp ný vinnubrögð á fjölmörgum sviðum. Þetta gekk upp og með því varð Fjölbrautaskólinn á Akranesi hluti af mjög merkilegum þætti í sögu framhaldsmenntunar á Íslandi. Innra hreyfiafl skólans í samspili við áhuga heimamanna átti stóran þátt í að skapa ný og betri menntunarskilyrði. Starfsmenn skólans voru tilbúnir að menntast til að geta betur menntað aðra.

Á 40 ára afmæli skólans var einnig gefið út veglegt afmælisrit. Í blaðinu er viðtal við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, yngstu konu sem sest hefur í ráðherrastól á Íslandi en hún lauk stúdentsprófi af félagfræðabraut í FVA. Aðspurð um hvernig var að vera nemandi í FVA segir hún: Það var alveg ótrúlega skemmtilegt, ég held að fjölbrautaskólaárin mín hafi verið með svona skemmtilegri árunum mínum.

Nemendafélag skólans, NFFA, stendur enn fyrir hefðbundnum viðburðum og heldur uppi fjöri í félagslífinu.

Sterkur kennarahópur

Í FVA hefur alltaf verið sterkur kennarahópur. Í ávarpi til útskriftarárgangs vorannar 2016 sagði Sigurbjörg Þrastardóttir, skáld og stúdent frá FVA:

Ég hef raunar aldrei skilið hvernig kennurum lukkast að framreiða námsefni sitt þannig að það passi öllum í einu, þegar skólastofan er skipuð jafn mörgum og mismunandi einstaklingum, en ég á heldur aldrei eftir að skilja töfra kennslu og þau kraftaverk sem kennarar vinna á hverjum degi.

Fjölbreytt samstarf

Eitt helsta sérkenni skólans á þessum fyrstu árum var að kennsla á hans vegum fór fram á þeim stöðum á Vesturlandi þar sem nemendafjöldi og aðrar aðstæður leyfðu. Reglulegt skólahald í nafni FVA hefur verið á Akranesi, í Borgarnesi, að Laugum í Dalasýslu, í Snæfellsbæ og Stykkishólmi.  Farskóli Vesturlands var starfandi frá 1990-1999. Á vegum Farskólans voru haldin námskeið og boðið upp á heildstætt nám á ýmsum sviðum, þó einkum vél- og skipstjórnarfræðsla fyrir starfandi sjómenn. Flestir voru nemendur Farskólans liðlega 700 skólaárið 1997-1998. Farskólinn varð síðar hluti af Símenntunarmiðstöð Vesturlands sem FVA stofnaði árið 1999 ásamt Bændaskólanum á Hvanneyri, Samvinnuháskólanum á Bifröst, Samtökum sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, fyrirtækjum og samtökum launafólks á Vesturlandi.

Við FVA er heimavist með 30 tveggja manna herbergjum. Þá er rekið stórt mötuneyti við skólann með öflugum tækjakosti. Rekstur skólans hefur yfirleitt gengið vel nema eftir efnahagshrunið 2008 allir þegar framhaldsskólar á Íslandi sættu miklum niðurskurði sem varði árum saman. Árið 2019 þurfti skólinn að skila tæpum 200 milljóna uppsöfnuðum rekstarafgangi til ráðuneytanna.

FVA á gott samstarf við fjölda aðila á svæðinu og leggur áherslu á góða tengingu við atvinnulífið. Auk samstarfs við aðra fjölbrautaskóla, MB og FSN, og FSS og FSU, er gott samstarf við Stóriðjuskólann, Akraneskaupstað, Heilsugæslu Vesturlands, Nýsköpunarsetrið, barnaverndaryfirvöld o.m.fl. Þá hefur skólinn átt farsælt samstarf við Íþróttabandalag Akraness. Árið 2016 var skrifað undir samning milli FVA, Akraneskaupstaðar og og ÍA um formlegt samstarf um uppbyggingu og rekstur afreksíþróttasviðs. Nemendur sem vilja stunda sína íþrótt að hætti afreksfólks fá handleiðslu sérmenntaðra þjálfara inn í stundatöflu sína og einingar að launum. Fjöldi nemenda sem stunda afreksíþróttir hefur sveifast nokkuð en er á bilinu 30-50 manns.

Sérstaða og áherslur

FVA er öflugur og rótgróinn bók- og verknámsskóli þar sem er hátt til lofts og vítt til veggja. Þar starfa nú um sjötíu manns, þar af rúmlega kennarar og leiðbeinendur. Boðið er upp á nám í málmiðngreinum, húsasmíði, rafvirkjun og sjúkraliðabraut ásamt hefðbundnu bóknámi til stúdentsprófs. Þá er í boði að stunda nám á öflugri starfsbraut við skólann. Auk náms í dagskóla er boðið upp á dreif- og helgarnám í verklegum greinum og á sjúkraliðabraut. Haustið 2020 er lista- og nýsköpunarsvið valkostur í fyrsta sinn fyrir nemendur á Vesturlandi.

Sérstaða og áherslur skólans frá 2020 felast í lýðræðislegum stjórnunar- og kennsluháttum, sterkum tengslum við atvinnulíf og íþróttir á svæðinu, persónulegri þjónustu, notalegu andrúmslofti og fjölbreyttu námsframboði.

Skólameistarar FVA

Ólafur Ásgeirsson 1977-1984

Þórir Ólafsson 1985-2001

Hörður Helgason 2001-2011

Atli Harðarson 2011-2014

Ágústa Elín Ingþórsdóttir 2014-2019

Steinunn Inga Óttarsdóttir 2020-