fbpx

Heimavistarreglur

Skólanámskrá FVA

 

Markmið heimavistarreglna er að tryggja hvíldar- og vinnufrið vistarbúa og eðlileg lífsskilyrði.

Yfirstjórn heimavistar er í höndum skólameistara og aðstoðarskólameistara sem hafa vistarstjóra sér til aðstoðar. Vistarstjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri og eftirliti með umgengni, aga og að reglum sé framfylgt, í samráði við skólameistara. Þegar næturvörður er við störf tekur hann við ábyrgð vistarstjóra.

Með undirritun húsaleigusamnings staðfestir vistarbúi (forráðamaður ef vistarbúi er yngri en 18 ára) jafnframt að hafa kynnt sér reglur þessar og viðurlög við broti á þeim.

 1. Vistarbúi fær úthlutað herbergi við innritun og ber ábyrgð á að fylgja þeim reglum um aga og umgengni sem gilda á heimavistinni og eru í samræmi við ákvæði skriflegs leigusamnings sem vistarbúi eða forráðamenn og FVA gera sín á milli. Reglur um öryggismyndavélar eru á vef skólans.
 2. Vistarbúar skulu njóta heimilisfriðar og raska ekki ró annarra vistarbúa. Slíkt kemur til kasta vistarstjóra eða skólameistara eftir alvöru máls. Vistarbúum ber að sýna hver öðrum og starfsfólki tillitssemi og kurteisi. Sérhver íbúi heimavistarinnar á rétt á því tekið sé tillit til óaska um næði. Til þess að tryggja öryggi íbúa heimavistar og til að líta eftir öryggisbúnaði hefur skólameistari eða vistarstjóri í umboði skólameistara rétt til að knýja dyra og ganga inn í herbergi til eftirlits.
 3. Vistarbúi skal ljúka að lágmarki 20 einingum á önn og hafa skólasóknareinkunn að lágmarki 5 til að eiga rétt á heimavistarplássi á á næstu önn. Vistarbúi sem ekki getur sinnt námi sínu vegna veikinda í lengri tíma en sem nemur einni viku samfleytt, á að njóta hjúkrunar heima hjá sér.
 4. Heimilt er að geyma reiðhjól í hjólagrind í anddyri heimavistar en ekki inni í herbergi. Bifreið vistarbúa má leggja á plani við heimavist, þó ekki þannig að hún hindri aðgang að sorptunnum eða inngangi heimavistar. Bannað er að spóla á planinu.
 5. Vistarbúar skulu ganga vel og þrifalega um herbergi sín og sameiginleg rými heimavistar. Hver vistarbúi skal annast ræstingu á herbergi sínu, sturtuklefa og salerni og losa rusl á viðeigandi hátt skv. tilmælum vistarstjóra. Vistarstjóri skoðar hvert herbergi m.t.t hreinlætis og umgengni á fyrirfram auglýstum tíma í hverri viku. Sé hreinlæti/umgengni ábótavant við slíka skoðun fær vistarbúi tiltekinn frest til úrbóta og skriflega áminningu ef ekki er bætt úr. Vistarbúi skal skila herbergi í sama horfi við annarlok og hann tók við því í upphafi og er honum óheimilt að yfirgefa heimavistina í lok annar nema vistarstjóri hafi áður yfirfarið herbergið. Valdi vistarbúi eða gestur hans skemmdum á húsnæði eða húsmunum, eldhústækjum, eldvarnarbúnaði eða öðrum búnaði, er vistarbúa skylt að bæta þær að fullu skv. mati umsjónarmanns fasteigna. Heimilt er að krefja alla vistarbúa um greiðslu fyrir skemmdir í sameiginlegu rými, ef ekki er upplýst hver hafi valdið þeim. Að hindra að reykskynjarar eða slökkvitæki virki sem skyldi er brottrekstrarsök af heimavist.
 6. Óheimilt er að flytja húsgögn milli herbergja og að taka húsgögn úr setustofu eða eldhúsi til notkunar í herbergjum og öfugt.
 7. Nemendum er heimilt að hafa hljómflutningstæki, tölvur og sjónvarpstæki inni á herbergjum sínum sé þess gætt að tækin valdi ekki truflun og að tekið sé tillit til annarra íbúa. Eftir kl. 23:30 alla daga er notkun slíkra tækja takmörkuð við einstaklingsnot (höfuðtól). Notkun annarra raftækja er háð leyfi heimavistarstjóra. Engir munir vistarbúa eru tryggðir á vegum skólans og skólinn tekur ekki ábyrgð á eigum þeirra. Vistarbúi skal sjálfur tryggja sína muni, telji hann ástæðu til.
 8. Vistarbúar mega ekki hafa með sér á heimavist neitt sem slysahætta stafar af. Öll meðferð elds er óheimil á heimavist, þar með talin notkun kerta og reykelsis. Öllum nemendum er skylt að taka þátt í brunaæfingum þegar þær fara fram undir leiðsögn slökkviliðsstjóra. Vistun gæludýra á heimavist er bönnuð.
 9. Vistarbúum er óheimilt að dvelja utan vistar á tímanum klukkan 24 til 07 virka daga og klukkan 01 til 07 föstudags- og laugardagskvöld nema með leyfi vistarstjóra og forráðamanna í þeim tilvikum þar sem vistarbúi er undir 18 ára aldri. Komi vistarbúar seinna heim en hér greinir skulu þeir hverfa hljóðlega til herbergja sinna. Allir gestir eiga að vera komnir út úr heimavistinni klukkan 23 nema á föstudags- og laugardagskvöldum þegar þeim er heimilt að dvelja til klukkan 01. Þá skal jafnframt vera komin á kyrrð í húsinu.
 10. Í húsaleigusamningi er gerð grein fyrir lokunardögum á heimavist og þá fara vistarbúar til síns heima. Ef vistarbúi óskar eftir að fara burt um helgi eða yfir nótt skal tilkynna það vistarstjóra og jafnframt gefa upp áætlaðan brottfarar- og komutíma. Í tilvikum þar sem vistarbúi er yngri en 18 ára hafi forráðamaður samband við vistarstjóra og staðfesti samþykki sitt fyrir fjarveru.
 11. Engum óviðkomandi er heimilt að dvelja næturlangt eða lengur á heimavist. Þó er heimilt er að hafa einn helgargest til gistingar tvisvar á önn að fengnu skriflegu samþykki skólameistara, sambýlings á heimavist og forráðamanns, eftir því sem við á. Sækja verður um leyfi fyrir kl. 11:00 á miðvikudegi til skólameistara. Gestir með lögheimili á Akranesi fá ekki gistiheimild. Gestir á grunnskólaaldri þurfa leyfi forráðamanna sinna til að heimsækja heimavistarbúa. Vistarbúar bera ábyrgð á herbergjum sínum og að gestir þeirra fari að reglum heimavistar og skóla. Brjóti gestur reglur heimavistar og skóla gilda viðeigandi viðurlög fyrir þann vistarbúa/nemanda sem er gestgjafi.
 12. Reykingar eru óheimilar á heimavist, á lóðinni og í farartækjum sem þar kunna að vera. Sama gildir um rafrettur og nikótínnotkun, t.d. í formi nikótínpúða og munntóbaks.
 13. Ölvun, meðferð, dreifing, varðveisla og neysla áfengis og annarra vímuefna er stranglega bönnuð. Brot á þessari grein varðar tafarlausri brottvísun. Bann þetta nær til alls húsnæðis skólans, lóðar hans og farartækja sem þar kunna að vera sem og á ferðalögum, samkomum eða öðrum viðburðum á vegum skólans. Áfengisumbúðir eru bannaðar á heimavistarherbergjum. Ef grunur vaknar um geymslu á áfengi eða ólöglegum vímuefnum, hafa vistarstjóri og/eða skólameistari eða staðgengill hans rétt til inngöngu í heimavistarherbergi til að rannsaka skápa og hirslur, að viðstöddum íbúum herbergisins. Ef rökstuddur grunur er fyrir hendi og brýna nauðsyn ber til, eiga sömu aðilar rétt til inngöngu að íbúum herbergisins fjarstöddum, en að viðstöddum lögráða fulltrúa þeirra. Komi vistarbúi drukkinn á heimavist er tafarlaust haft samband við forráðamann eða aðstandanda, skv. húsaleigusamningi, sem skal sækja viðkomandi. Málið fer eftir það í ferli hjá skólameistara.
 14. Óheimilt er með öllu að neyta, varðveita, dreifa eða vera undir áhrifum ólöglegra vímuefna eða hafa tæki til neyslu í vörslu sinni í húsum skólans, á skólalóð, svo og á ferðalögum, samkomum eða öðrum viðburðum sem fram fara á vegum skólans. Brot á þessari grein varðar tafarlausri brottvísun. Vakni grunur um meðferð og/eða neyslu ólöglegra vímuefna hjá nemanda er haft samband við forráðamenn og forvarnarfulltrúa skólans.
 15. Komi til brottvísunar af heimavist eða úr skóla skal skólameistari gefa skriflega tilkynningu um slíka brottvísun. Íbúi á heimavist skal hafa rýmt herbergi sitt innan sjö daga frá dagsetningu tilkynningar um brottvísun.
 16. Einelti og annað ofbeldi er aldrei liðið. Hér telst með rafrænt einelti. Einelti og ofbeldi skal tilkynna gegnum vef skólans eða til skólastjórnenda. Eineltismál fara í ferli skv. verklagslýsingu í gæðahandbók á vef skólans.
 17. Reglur þessar taka gildi frá 15. júní 2022 og falla þar með úr gildi eldri heimavistarreglur. Skólameistari og vistarráð geta hvenær sem er endurskoðað heimavistarreglur.

Viðurlög við brotum á reglum heimavistar

Brjóti vistarbúi reglur heimavistar tekur vistarstjóri á því og getur sett málið í ferli til skólameistara. Komi til áminningar fer með það skv. stjórnsýslulögum.

Tafarlaus brottvísun eða áminning fylgir eftirfarandi brotum:

 • Neyta, varðveita, dreifa eða vera undir áhrifum vímuefna eða hafa tæki til neyslu í vörslu sinni í húsum skólans, á skólalóð, svo og á ferðalögum, samkomum eða öðru viðburðum sem fram fara á vegum skólans.
 • Ölvun, meðferð, dreifing, varðveisla og neysla áfengis á heimavist, á lóðinni eða í farartækjum sem þar kunna að vera.
 • Skemmdir á munum eða húsnæði skólans, eftir alvöru máls.
 • Sérhver hindrun þess að reykskynjarar og slökkvitæki virki sem skyldi.
 • Gestur án leyfis á heimavist.
 • Þrjár skriflegar áminningar á yfirstandandi skólaári.

Vistarráð

Heimavistarbúar kjósa þriggja til fjögurra manna vistarráð og tvo til vara á almennum vistarfundi, innan tveggja vikna frá upphafi haustannar. Fráfarandi vistarráð situr fram að kosningum.

Hlutverk vistarráðs er að vera tengiliður nemenda við stjórnendur, funda um hagsmunamál nemenda og skipuleggja félagslíf meðal heimavistaríbúa.  Vistarráð kemur saman eigi sjaldnar en tvisvar á önn.