fbpx

Heimavistarreglur

Skólanámskrá FVA

Inngangur

Í heimavistarreglum FVA er tekið á mikilvægum reglum sem allir vistarbúar þurfa að fara eftir til að tryggja gott samfélag þar sem öllum getur liðið vel og allir ná að sinna náminu vel. Heimavistin er heimili nemenda og skulu þeir njóta heimilisfriðar. Heimavistarreglunum er skipt upp í eftirfarandi flokka, sbr. greinar 1 til 9 hér að neðan: Stjórnunarleg ábyrgð, námið, almenn umgengni og þrif, útivist og leyfi, ábyrgð vegna gesta, ábyrgð vegna mögulegra skemmda á húsnæði eða munum, vímuefni og viðurlög við notkun þeirra, tóbak, reykingar og viðurlög við þeim og áminning.

Markmið heimavistarreglnanna er að tryggja hvíldar- og vinnufrið vistarbúa og vera til leiðsagnar ef heimilisfriðnum er stefnt í hættu eða ef vistarbúar fara ekki að settum reglum á öðrum sviðum.

Reglurnar eru kynntar umsækjendum um heimavist og forráðamönnum umsækjenda sem eru undir 18 ára aldri. Brot á heimavistarreglum eru tilkynnt til forráðamanna vistarbúa yngri en 18 ára.

Vistarbúi fær úthlutað tilteknu herbergi við innritun. Hafi komið fram ósk um sérstaka herbergjaskipan í umsókn er leitast við að taka tillit til þess við úthlutun herbergja. Óskir um breytingar við eða eftir innritun eru skoðaðar í samráði við vistarstjóra.

Í húsaleigusamningi eru upplýsingar um búnað sem fylgir vistinni sem og varðandi óheimilan búnað, s.s. bann við hlutum sem slysahætta stafar af og bann við eldunartækjum og notkun opins elds. Við undirritun húsaleigusamnings staðfestir vistarbúi (forráðamaður ef vistarbúi er yngri en 18 ára) jafnframt að hafa kynnt sér reglur þessar og viðurlög við broti á þeim.

Reglur um öryggismyndavélar eru aðgengilegar á heimasíðu FVA.

Rýmingaráætlun í tilviki bruna er aðgengileg á heimasíðu FVA.

Ferli vegna áminninga er aðgengilegt á heimasíðu FVA.

 

  1. Stjórnunarleg ábyrgð

1.1          Skólameistari fer með stjórn heimavistar og vistarstjóri í umboði hans.

1.2          Vistarstjóri ber ábyrgð á daglegum rekstri og eftirliti með umgengni, aga og að reglum sé framfylgt, í samráði við skólameistara. Þegar næturvörður er við störf tekur hann við ábyrgð vistastjóra.

  1. Námið

2.1          Nemendur á heimavist skulu stunda nám sitt af alúð og kostgæfni. Vistarbúi skal ljúka a.m.k. 20 námseiningum á önn (12 gamlar einingar), eða ljúka 24 kennslustunda námi með fullnægjandi árangri, til að öðlast rétt á heimavistarplássi á næstu önn. Ef skólasóknareinkunn vistarbúa er lægri en 7 á hann á hættu að missa pláss sitt á vistinni á næstu önn. Aðstoðarskólameistari, í samráði við skólameistara, fylgir þessu eftir við vistarbúa og forráðamenn þegar nemandi er undir 18 ára aldri. 

  1. Almenn umgengni og þrif

3.1          Nemendur skulu jafnan forðast að valda ónæði og spilla vinnufriði. Klukkan 18 til 20 virka daga er lestími á vistinni. Þá skulu nemendur varast sérstaklega að trufla heimanámið og hafa umgang í lágmarki.

3.2          Notkun tækja, s.s. tölva, símtækja og sjónvarps má ekki valda öðrum ónæði, t.d. vegna hávaða og birtu.

3.3          Nemendur skulu sjálfir sjá um þrif á herbergjum sínum og sameiginlegum vistarverum og tiltekt á lóð heimavistar eftir nánari ákvörðun heimavistarstjóra hverju sinni.

3.4          Vistarbúi skal skila herbergi í sama horfi við annarlok og hann tók við því í upphafi og er honum óheimilt að yfirgefa heimavistina í lok annar nema vistarstjóri hafi áður yfirfarið herbergið.

3.5          Eftirlit með þrifum fer fram á fyrirfram auglýstum tíma. Ef vistarbúi er ekki heima á þeim tíma eða öðrum umsömdum tíma hefur vistarstjóri heimild til inngöngu í herbergið til eftirlits án þess að vistarbúi sé viðstaddur.

  1. Útivist og leyfi

4.1          Vistarbúum er óheimilt að dvelja utan vistar á tímanum klukkan 24 til 07 virka daga og klukkan 02 til 07 föstudags- og laugardagskvöld nema með leyfi vistarstjóra og forráðamanna í þeim tilvikum þar sem vistarbúi er undir 18 ára aldri. Komi vistarbúar seinna heim en hér greinir skulu þeir hverfa hljóðlega til herbergja sinna

4.2          Allir gestir eiga að vera komnir út úr heimavistinni klukkan 23 nema á föstudags- og laugardagskvöldum þegar þeim er heimilt að dvelja til klukkan 01. Þá skal jafnframt vera komin á kyrrð í húsinu.

4.3          Ef vistarbúar óska eftir að fara burt um helgi eða yfir nótt skulu þeir tilkynna það vistarstjóra og jafnframt gefa upp áætlaðan komutíma. Í tilvikum þar sem vistarbúi er yngri en 18 ára hafi forráðamaður samband við vistarstjóra og staðfesti samþykki sitt fyrir fjarveru.

  1. Ábyrgð vegna gesta

5.1          Vistarbúar bera ábyrgð á gestum sínum. Reglur þessar gilda einnig fyrir gesti vistarbúa.

5.2          Leyfi til að hafa næturgest er háð samþykki vistarstjóra, sambýlings og forráðamanna nemenda undir 18 ára aldri og skal sækja um það til vistarstjóra með minnst tveggja daga fyrirvara. 5.3 Gestir á grunnskólaaldri þurfa leyfi vistarstjóra til að heimsækja heimavistarbúa. Á vetrum gilda almenn viðmið um útivistartíma barna og dvelja grunnskólanemendur ekki lengur á heimavist en sá tími segir til um.

5.4.        Valdi fjöldi gesta öðrum vistarbúum ónæði hefur vistarstjóri heimild til að takmarka fjölda gesta í herbergi vistarbúa og í sameiginlegum rýmum heimavistarinnar.

  1. Ábyrgð vegna skemmda á húsnæði eða munum

6.1          Vistarbúar eða forráðamenn þeirra, hafi þeir ekki náð 18 ára aldri, eru fjárhagslega ábyrgir fyrir skemmdum sem þeir eða gestir þeirra valda á húsnæði eða munum heimavistar. Skemmdir skal bæta að fullu skv. mati umsjónarmanns fasteigna.

6.2          Skólinn ber ekki ábyrgð á eigum vistarbúa, hvorki í herbergjum né í sameign. Vistarbúar skulu læsa herbergjum sínum og hirslum.

  1. Vímuefni og viðurlög við notkun

7.1          Notkun, dreifing og geymsla áfengis og hvers kyns vímugjafa er stranglega bönnuð á heimavist skólans. Bann þetta nær til alls húsnæðis vistarinnar, skólalóðar og farartækja sem þar kunna að vera. Þurfi vistarstjóri að hafa afskipti af vistarbúa vegna neyslu hans á áfengi eða öðrum vímugjöfum verður hann að víkja af vistinni tafarlaust. Brot á banni við meðferð áfengis og vímuefna varðar riftun á húsaleigusamningi.

7.2          Íbúar á heimavist sem grunaðir eru um neyslu áfengis skulu eiga kost á að blása í áfengismæli á heimavist. Íbúar á heimavist sem grunaðir eru um neyslu annarra vímuefna skulu eiga kost á að gangast undir vímuefnapróf hjá Heilsugæslunni. Ef niðurstaða prófs reynist jákvæð telst um brot að ræða sbr. grein 7.1. Ef íbúar á heimavist neita að gangast undir áfengis- eða vímuefnapróf þrátt fyrir grun um að þeir hafi neytt áfengis eða vímuefna skal litið svo á að þeir hafi brotið gegn grein 7.1

7.3          Ef grunur vaknar um geymslu á áfengi eða ólöglegum vímuefnum hafa vistarstjóri og skólameistari rétt til að rannsaka öll rými, skápa og hirslur í vistarverum íbúa að viðstöddum íbúum herbergisins eða forráðamanns þegar vistarbúi er undir 18 ára aldri.

7.4          Verði umsjónarmenn heimavistar varir við brot gegn framangreindum reglum í greinum 7.1 til 7.3 við framfylgni þeirra sem varðar vistarbúa og nemanda við skólann sem er undir 18 ára aldri skal barnaverndarnefnd tilkynnt um atvikið. 

  1. Tóbak, reykingar og viðurlög við þeim

8.1          Reykingar eru bannaðar á heimavist, við húsakynni skólans og á lóð hans. Sama bann gildir um notkun rafretta, munn- og neftóbaks. Með rafrettum er átt við tæki sem notað er til neyslu á gufu frá því. Verði vistarbúar eða gestir þeirra uppvísir að því að nota tóbak eða rafrettur í húsnæði vistarinnar verða þær gerðar upptækar. Eigandi, eða forráðamaður ef eigandi er undir 18 ára aldri, getur vitjað tækisins hjá aðstoðarskólameistara.

8.2          Ítrekuð brot vistarbúa og gesta þeirra á grein 8.1 varða riftun á húsaleigusamningi.

8.3          Neitun á að afhenda slík efni og tæki þegar vistarstjóri krefst þess varðar riftun á húsaleigusamningi.

  1. Eftirlit vistarstjóra

9.1          Vistarstjóri annast daglegt eftirlit með umgengni, aga og reglu á heimavist í umboði skólameistara.

9.2          Vistarstjóri hefur rétt til inngöngu í herbergi vistarbúa í eftirfarandi tilvikum:

                Vegna eftirlits með umgengi og þrifum sbr. grein 3.5

                Vegna eftirlits vegna ónæðis sbr. greinar 3.2, 3.3 og 5.4

                Vegna eftirlits með herbergjum í helgarlokunum og fríum (s.s. vegna rafmagns, lokunar á gluggum)

                Vegna eftirlits vegna gruns um notkun áfengis og annarra vímuefna ásamt
reykingum, sbr. kafla 7 og 8

                Vegna eftirlits með vistarbúa í tengslum við veikindi hans/hennar

9.3          Ef vistarbúi er ekki heima þegar eftirlit skv. tilvísuðum tilvikum í grein 9.2 fer fram hefur vistarstjóri heimild til inngöngu í herbergi til eftirlits án þess að vistarbúi sé viðstaddur. Vegna leitar í herbergjum vistarbúa á grundvelli ákvæða 3.5 greinar og 7. og 8. kafla skal gefa vistarbúum tækifæri á að vera viðstaddir þegar leit umsjónarmanna heimavistar fer fram.

  1. Áminning

10.1       Brot á framangreindum reglum geta varðað áminningu, leitt til brottrekstrar af heimavist og riftunar á húsaleigusamningi.

10.2       Brjóti vistarbúi ítrekað eða gróflega af sér, t.d. með ofbeldisverknaði eða með öðrum    alvarlegum hætti, er honum vikið úr skóla og af heimavist tafarlaust. Slík brottvikning felur í sér tafarlausa riftun á leigusamningi viðkomandi aðila um íbúð á heimavist.