fbpx

Heilsu- og forvarnar­stefna

 

FVA er þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli frá haustinu 2011 og starfandi er stýrihópur sem vinnur að markmiðum heilsu- og forvarnarstefnu skólans. Verkefnið beinist að öllu skólasamfélaginu og er meginmarkmið þess að stuðla að líkamlegu, andlegu og félagslegu heilbrigði þeirra sem nema og starfa við skólann. Heilsu- og forvarnarstefnunni er ætlað að hafa heilsueflandi áhrif á daglegar venjur og starf í skólanum þar sem nemendur og starfsfólk er hvatt til virkrar þátttöku og aukinnar meðvitundar um gildi bættrar heilsu og líðanar. Gildi skólans endurspeglast einnig í stefnunni en þau eru jafnrétti, virðing og fjölbreytileiki. Í skólanum er unnið með heilsueflingu, forvarnir og félagslíf á heildrænan hátt þar sem áhersla er lögð á að styrkja verndandi þætti heilbrigðis en veikja áhættuþætti eða hegðun sem getur valdið vanlíðan eða heilsutjóni.
Markmið heilsu- og forvarnarstefnunnar er að stuðla að meðvitund nemenda og starfsfólks um samhengið á milli hollrar næringar, hreyfingar, geðræktar, vellíðanar, góðra svefnvenja, náms, starfs og daglegs lífs og hvetja alla til að taka ábyrgð á eigin heilsu. Skólinn setur sér fjögur undirmarkmið sem lúta að hollu mataræði, aukinni hreyfingu, geðrækt og vímuefnavörnum.

Næring

Markmið:

  • Að stuðla að aukinni vitund um gildi fjölbreyttra, hollra og reglulegra matarvenja fyrir vellíðan og velgengni
  • Að nemendur og starfsfólk hafi gott aðgengi að hollu og fjölbreyttu fæði í mötuneytinu
  • Að stuðlað sé að því að sem flestir borði hollan og staðgóðan morgunverð

Leiðir að markmiðum:

  • Ávallt sé boðið upp á heitan mat í hádeginu þar sem Handbók um næringu í framhaldsskólum er höfð að leiðarljósi
  • Gátlisti næringar frá Embætti landlæknis sé hafður að leiðarljósi varðandi úrval í mötuneytinu
  • Staðgóður og ódýr morgunverður (s.s. hafragrautur) sé í boði í fyrstu frímínútum
  • Aðgengi að drykkjarvatni sé gott
  • Hollur valkostur sé í boði hvað varðar fundarfæði
  • Ráðleggingar Embættis landlæknis um hollt mataræði séu sýnilegar innan skólans og stuðlað sé að fræðslu sem vekur fólk til umhugsunar um gildi hollrar næringar
    Valáfangi í næringarfræði sé í boði

Hreyfing

Markmið:

  • Að stuðla að aukinni vitund um gildi hreyfingar fyrir heilsu, líðan og árangur
  • Að hvetja nemendur og starfsfólk til að gera hreyfingu að hluta af daglegum lífsstíl

Leiðir að markmiðum:

  • Skólinn stendur fyrir svokölluðu „Hreyfikorti“ þar sem mánaðarlega eru heilsutengdir viðburðir fyrir nemendur og starfsfólk. Margir viðburðanna eru hreyfitengdir, s.s. fjallganga, skólahlaup, íþróttir og leikir og skal hvetja alla til þátttöku
  • Bjóða upp á afreksíþróttasvið sem auðveldar íþróttafólki skólans að stunda íþrótt sína með námi
  • Hvetja til þátttöku í hvatningarátökum eins og Lífshlaupinu og Hjólað í vinnuna
  • Öflugur íþróttaklúbbur nemenda sé starfræktur undir leiðsögn félagslífs- og forvarnarfulltrúa
  • Nemendur séu hvattir til þátttöku í ýmsum framhaldsskólamótum í íþróttum
  • Kennarar séu meðvitaðir um nýtingu nærumhverfis við kennslu
  • Vinna að smíði hjólaskýlis við FVA
  • Efla samstarf við nærsamfélag um hreyfingu starfsfólks
  • Bjóða upp á áhugaverða valáfanga í íþróttum
  • Hvetja nemendur til að nota virkan ferðamáta með því að bjóða upp á áfangann „Göngum/hjólum í skólann“

Geðrækt

Markmið:

  • Að skólastarfið taki mið af því að hlúð sé að andlegri heilsu nemenda og starfsfólks skólans og að allir leggi sitt af mörkum til að efla jákvæðan skólabrag
  • Að gildi FVA, jafnrétti, virðing og fjölbreytileiki, séu öll raungildi skólans en ekki óskagildi
  • Að samskipti einkennist af gagnkvæmri virðingu og skólabragurinn endurspegli virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífsins
  • Að stuðlað sé að jafnrétti þar sem hver einstaklingur fær tækifæri til að njóta sín á eigin forsendum og finni að velferð hans skipti máli

Leiðir að markmiðum:

  • Fræðsla, þjálfun og vitundarvakning um gildi geðræktar og forvarnir gegn streitu t.d. í kennslustundum, á Opnum dögum og á viðburðum Hreyfikortsins. Stýrihópur FVA um heilsueflingu hafi Handbók um geðrækt í framhaldsskólum að leiðarljósi
  • Hvetja til uppbyggilegs félagslífs nemenda sem einkennist af heilbrigðum lífsháttum og miði að því að efla félagsþroska þeirra
  • Jafnréttisáætlun og eineltisáætlun skólans sé haldið á lofti og aðgengileg á heimasíðu skólans
  • Hvetja til jákvæðra samskipta og að nemendum og starfsfólki sé hrósað fyrir það sem vel er gert
  • Skólahjúkrunarfræðingur og náms- og starfsráðgjafar séu starfandi við skólann og starf þeirra eflt
  • Miðla upplýsingum til nemenda, foreldra og starfsfólks um hvert sé hægt að leita ef geðrænn vandi steðjar að
  • Tekið sé sérstaklega vel á móti erlendum nemendum sem fái tengiliði úr röðum nemenda og kennara
  • Valáfangi um jákvæða sálfræði sé í boði

Vímuefnavarnir

Markmið:

  • Að skólinn sé tóbaks-, áfengis- og vímefnalaus vinnustaður
  • Að félagslíf nemenda einkennist af heilbrigðum lífsháttum

Leiðir að markmiðum:

  • Áhersla er lögð á jákvæða þætti og heilbrigði en varúðar gætt í miðlun fræðslu um vímuefni fyrir stóran nemendahóp
  • Samvinna við foreldraráð um fræðslu fyrir foreldra um vímuefnavarnir unglinga
  • Nemendur í sérstakri hættu fái leiðsögn varðandi vímuefnavarnir hjá forvarnafulltrúa, skólahjúkrunarfræðingi eða náms- og starfsráðgjafa og þeim vísað til annarra fagaðila eftir þörfum
  • Miðla upplýsingum til nemenda, foreldra og starfsfólks um hvert sé hægt að leita varðandi vímuefnavanda
  • Skólinn setji skýrar ballreglur og sanngjörn viðurlög við brotum á þeim sem fylgt er eftir með viðtölum
  • Nemendafélag skólans taki virkan þátt í því að hvetja nemendur til vímulauss skemmtanahalds, m.a. með „edrúpottinum“
  • Félagslífs- og forvarnarfulltrúar vinna með stjórn nemendafélagsins að skipulagningu félagslífs nemenda og hvetja til uppbyggilegra viðburða
  • Starfsfólk fylgi fast eftir reglum um tóbaksnotkun nemenda í skólanum og sé sjálft góðar fyrirmyndir
  • Að við skólann starfi forvarnarhópur nemenda að jafningjafræðslu eftir áhuga
  • Allir nýnemar fái forvarnarfræðslu um vímuefnavarnir og áfengisneyslu

 

Heilsueflandi framhaldsskóli – gagnlegir tenglar

Næring:

Hreyfing:

Geðrækt:

Vímuefnavarnir:

Heilsa og forvarnir – eitt og annað: