Í tilefni komandi alþingiskosninga boða Landssamband ungmennafélaga (LUF) og Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) til skuggakosninga. Eins og mörgum er kunnugt um eru skuggakosningar liður í lýðræðisverkefninu #ÉgKýs sem hefur það að markmiði að efla lýðræðisvitund og hvetja ungt fólk til að kjósa eftir upplýstri ákvörðun. Skuggakosningar eru eins konar æfingakosningar þar sem framhaldsskólanemar kjósa sína fulltrúa á Alþingi og endurspegla vilja nemenda um allt land.
FVA er þátttakandi í Skuggakosningum eins og fyrri ár.
Þetta er í fimmta sinn sem Skuggakosningar fara fram. Sýnt er að þær hafi haft jákvæð áhrif á kjörsókn. Þrátt fyrir þann árangur sem náðst hefur með víðtæku samstarfi er kosningaþátttaka þó ennþá minni meðal yngri kjósenda og því mikilvægt að halda verkefninu áfram með krafti. Nauðsynlegt er að hlúa að yngstu kjósendunum og stuðla að jákvæðri og uppbyggilegri umræðu fyrir kosningarnar.
Tökum þátt, leggjum okkar af mörkum, ekki gera ekki neitt!