Í dag er alþjóðlegi flokkunardagurinn. Tilgangur dagsins er að minna á mikilvægi verndunar náttúrunnar og auðlinda jarðarinnar sem rýrna með degi hverjum. Við þurfum að líta á það sem við hendum sem tækifæri en ekki sem úrgang. Flokkun er lykilþáttur í hringrás efnahagskerfisins og til að draga úr skaða.
Hér í FVA er sorp markvisst flokkað og endurvinnslutunnur má finna víða um skólann. Nemendur í málmiðngreinum eru sérstaklega duglegir að flokka en þar fer allur afskurður af járni í endurvinnsluna í sérstökum gámi og eðalmálmar eru aðgreindir í rústfrítt, ál og kopar/messing. Það vill svo til að í morgun, á alþjóðlega flokkunardeginum, kom gámabíll að sækja afrakstur flokkunarinnar. Hefð er fyrir því að í lok annar haldi nemendur í málmiðngreinum veglegt pizzupartý fyrir hagnaðinn af þessari sorpflokkun.