fbpx

Kennsla hefst á nýju ári í staðnámi skv. skóladagatali fimmtudaginn 6. janúar af fullum krafti.

Það er mat stjórnvalda að þýðingarmikið sé að leik-, grunn-, tónlistar- og framhaldsskólar starfi með eins eðlilegum hætti og kostur er, og að frístunda-, íþrótta- og tómstundastarf sé í boði fyrir börn og ungmenni. Skólar eru jafnframt hvattir af stjórnvöldum til að huga að því hvernig megi auðvelda nemendum í sóttkví/einangrun að nálgast námsefni og skila verkefnum og verður það haft að leiðarljósi við gerð kennsluáætlana vorannar. Öryggi, heilsa og velferð nemenda og starfsmanna skiptir okkur öll miklu máli og hefur starfsfólk skóla landsins sannarlega unnið þrekvirki með stuðningi sínum við nemendur og fyrir að halda uppi skólastarfi á krefjandi tímum. Starfsemi skóla er vissulega viðkvæm eins og staðan er og ljóst að skólahald getur raskast á komandi vikum vegna fjölgunar smita í samfélaginu. Það er mat skólameistara FVA að það sé þó til lítils að byrja með fjarkennslu þegar samfélagið allt er að fara af stað – betra sé að eiga svigrúm til góða ef allt fer á versta veg og mikilvægt er fyrir nemendur að komast í daglega, hefðbundna rútínu við nám og störf. Við komum okkur því strax að verki og kennum af krafti eins og hver kennslustund sé okkar síðasta í staðnámi.

Stundaskrár nemenda opna í INNU þann 5. janúar kl. 12 og þá verður jafnframt opnað fyrir óskir um töflubreytingar.

Gildandi takmarkanir til 12. janúar: Reglan er 50 manna fjöldatakmörkun í skólanum, blöndun hópa heimil. Vinsamlegast virðið fjarlægðarmörk (2 m). Grímuskylda er í skólanum, alltaf. Saman sótthreinsum við snertifleti eins og áður, þvoum hendur og sprittum. Hólfaskipt verður í mötuneyti eftir nánara skipulagi sem verður kynnt síðar.

Mælst verður til þess að nemendur á heimavist taki heimapróf áður en þeir koma. Engir gestir eru leyfðir á heimavist þar til annað verður tilkynnt.

Allar nánari upplýsingar hjá aðstoðarskólameistara, drofn@fva.is eða hjá öryggisnefnd FVA.