fbpx

Í gærkvöldi frumsýndi Leiklistarklúbburinn Melló söngleikinn Útfjör í Bíóhöllinni á Akranesi. Við erum rífandi stolt af okkar fólki, en sýningin heppnaðist afbragðs vel. Fór leikhópurinn á kostum, en að sýningunni koma um 30 manns. Útfjör er grátbroslegt fjölskyldudrama með sterkan boðskap, sýning sem enginn ætti að missa af.

Önnur sýning verður sunnudaginn 27. mars kl. 20:00 og hægt er að kaupa miða á tix.is

Heiti verksins, Útfjör, er vísun í eitt af störfum fjölskylduföðurins í verkinu sem rekur útfararstofu meðfram því að vera móðurmálskennari. Leikritið fjallar um æsku og námsár Alison Bechdel og gerist á þremur tímaskeiðum. Þekktust er Alison líklega fyrir að vera höfundur hins fræga Bechdel-prófs.

Útfjör (Fun Home) var fyrsti söngleikurinn sem sýndur var á Broadway þar sem aðalpersónan er lesbía. Söngleikurinn var frumsýndur í Bandaríkjunum árið 2013 og fékk hin eftirsóknarverðu Tony-verðlaun fyrir bestu tónlist, besta handrit og besta söngleikinn árið 2015. Íslensk þýðing verksins er eftir Önnu Gunndísi Guðmundsdóttur og Einar Aðalsteinsson.