Nemendur á unglingastigi grunnskólanna á Vesturlandi fjölmenntu á Tæknimessu í Fjölbrautaskóla Vesturlands í dag, í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi. Markmið Tæknimessu er að kynna það nám sem er í boði í Fjölbrautaskóla Vesturlands á sviði iðn- og verkgreina og þau tækifæri sem bjóðast til atvinnu hjá iðn- og tæknifyrirtækjum í landshlutanum að loknu námi.
Fjörið hófst kl. 10 í morgun. Rútur streymdu að skólanum í allan dag með nemendahópa víða að og voru gestir um 750 talsins, bæði nemendur og kennarar þeirra. Lögð var áhersla á að kynna iðn- og verknám sem FVA býður upp á, en aðrar brautir buðu einnig upp á kynningu. Ýmis tæknifyrirtæki voru svo með bása þar sem þau kynntu sína starfsemi og buðu upp á nasl. Það var því líf og fjör og nóg að skoða, prófa og smakka í allan dag. Enginn fór svangur úr húsi því Hugrún og hennar teymi í mötuneyti FVA reiddu fram dýrindis lasagna fyrir hópinn.
Frá FVA héldu nemendahóparnir svo áfram sína leið, heimsóttu Nýsköpunarsetrið á Breið og stóriðjuna á Grundartanga.
Við þökkum gestum okkar kærlega fyrir komuna og vonumst til að sjá þau sem flest á ný!