fbpx
Útskriftarhópurinn haustið 2023 með skólameistara og áfangastjóra.

Í dag, miðvikudaginn 20. desember 2023, voru 53 nemendur brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Vesturlands. 19 hafa lokið burtfaraprófi í húsasmíði, tveir nemendur eru að ljúka bæði burtfaraprófi í húsasmíði og viðbótarnámi til stúdentsprófs. Átta hafa lokið burtfararprófi úr rafvirkjun, einn nemandi er að ljúka bæði burtfararprófi í rafvirkjun og viðbótarnámi til stúdentsprófs. 12 ljúka burtfararprófi af sjúkraliðabraut, einn nemandi er að ljúka bæði burtfararprófi á sjúkraliðabraut og viðbótarnámi til stúdentsprófs. Einn lýkur burtfararprófi í vélvirkjun. Alls hafa 12 nemendur lokið stúdentsprófi.

Jónína Víglundsdóttir áfangastjóri, setti athöfnina og Steinunn Inga Óttarsdóttir skólameistari flutti ávarp. Í því ræddi hún m.a. skólamál, uppeldi og lestur og hvernig skólinn mætir áskorunum í kennslu. Einnig nefndi hún mikilvægi samveru og kom með góð ráð fyrir nemendur út í lífið.

Tónlistarflutningur við athöfnina var í höndum strengjatríós frá Tónlistarskóla Akraness en þau spiluðu í byrjun athafnar og fluttu svo jólalagið Carol of the bells. Anna Valgerður Árnadóttir lék á fiðlu, Úlfhildur Þorsteinsdóttir á víólu og Ellert Kári Samúelsson nemandi FVA á selló.

Ísak Emil Sveinsson flutti ávarp fyrir hönd útskriftarnema þar sem hann nefndi áskoranir sem nemendur væru búnir að sigrast á og þakkaði kennurum og öðru starfsfólki skólans fyrir að hvetja nemendur áfram. Guðbjörg Regína Gunnarsdóttir flutti ávarp fyrir hönd sjúkraliðanema þar sem hún nefndi mikilvægi dreifnáms og hvatti nemendur til að líta yfir farinn veg og sjá hvað stóð upp úr í náminu en einnig hvað betur mætti fara.

Eftirtaldir nemendur fengu verðlaun og viðurkenningar t.a.m. fyrir ágætan námsárangur og störf að félags- og menningarmálum. Nöfn þeirra sem gefa verðlaun eru innan sviga:

  • Aron Elvar Dagsson fyrir góðan árangur í rafiðngreinum (Skaginn 3X).
  • Friðmey Ásgrímsdóttir fyrir ágætan árangur í íslensku (Landsbankinn), líffræði og efnafræði (Íslandsbanki), tréiðngreinum (VLFA) og fyrir framlag sitt til félagsstarfa (Minningarsjóður Karls Kristins Kristjánssonar).
  • Gabríel Ómar Hermannsson fyrir að gegna formennsku í Rafíþróttaklúbbi FVA (Minningarsjóður Karls Kristins Kristjánssonar).
  • Heiðrún Sara Guðmundsdóttir fyrir góðan árangur í sérgreinum sjúkraliða (Sjóvá) og hún hlaut einnig hvatningarverðlaun Zontaklúbbsins.
  • Hólmfríður Erla Ingadóttir fyrir ágætan árangur í spænsku (Penninn), stærðfræði (Tölvuþjónustan), efnafræði (Akraborg) og samfélagsgreinum (Soroptimistasamband Íslands).
  • Ísak Emil Sveinsson fyrir frábæran árangur í íslensku (Landsbankinn), raungreinum (Elkem), ensku og þýsku (Rótarýklúbbur Akraness) og fyrir framlag sitt til umhverfismála og alþjóðlegra samskipta (FVA).
  • Jóhann Ingi Óskarsson fyrir góðan árangur í tréiðngreinum (SF smiðir).
  • Margeir Ingi Rúnarsson fyrir ágætan árangur í tréiðngreinum (Íslandsbanki).
  • Rúnar Birgisson fyrir góðan árangur í tréiðngreinum (Sjammi).

Anna Lilja Lárusdóttir, Dísa María Sigþórsdóttir og Magnús Máni Sæmundsson hlutu viðurkenningu og hvatningu til áframhaldandi náms úr Minningarsjóði Lovísu Hrundar.

Ísak Emil Sveinsson hlaut viðurkenningu skólans fyrir bestan árangur á stúdentsprófi með einkunnina 9,58 eftir aðeins tvö og hálft ár.

Ísak Emil Sveinsson dúx með áfangastjóra og skólameistara.
Steinunn Inga Óttarsdóttir skólameistari flytur ávarp.
Útskriftarnemendur setja upp húfurnar.
Fullur salur var við athöfnina.