fbpx

Þá er komið að heimferð eftir mjög vel heppnað Erasmus-ævintýri í Þýskalandi. Nemendur FVA stóðu sig eins og hetjur, bæði í vel skipulögðu prógramminu en ekki síður í lífinu utan dagskrár þar sem þau tóku þátt í heimilislífi bláókunnugs fólks sem fór að mestu fram á þýsku að þeirra sögn. 

Þetta voru lærdómsríkir dagar þar sem við kynntumst kennurum og nemendum frá Þýskalandi, Spáni og Ítalíu og komumst að því að það er margt líkt í skólastarfinu (allir þreyttir á vaxandi og truflandi símanotkun nemenda) en líka mjög margt ólíkt, td. er kennt á laugardögum á Ítalíu og mjög erfitt að fá fastráðningu sem kennari þar. Skólastýran er lögfræðingur sem rekur skólann eins og fyrirtæki með blússandi veltu en flestir skólastjóranna, amk. í Þýskalandi og á Spáni, þurfa líka að sinna nokkurra klst. kennslu á viku! Launin eru talsvert betri á Íslandi heldur en í hinum löndunum. Í Þýskalandi og á Ítalíu eru kennararnir ávarpaðir sem herra og frú „eftirnafn þeirra“ eða herra og frú prófessor. Við Frank munum taka upp þennan sið strax á mánudag.

Í verkefninu tóku þátt nemendur á aldrinum 14-17 ára, Spánverjarnir þeir yngstu. Við fórum á söfn, á jarðarberjabúgarð/ævintýraland, í keilu, ratleik um borgina og fylgdumst með hefðbundinni kennslu svo fátt eitt sé nefnt. Margt kom á óvart en það sem kom ekki á óvart var hversu miklir endemis snillingar okkar krakkar eru. Þau voru landi, þjóð og FVA til sóma. 

Hlökkum til að koma heim, keyptum rammþýska jarðarberjasultu og síld fyrir kaffistofuna svo þið getið byrjað að hlakka til.

Auf wieder sehen, 

Kristín og Frank