fbpx

Í lok apríl var gefin út skýrslan „Áfram Ísland: Tillögur að fyrirkomulagi afreksstarfs“. Í skýrslunni eru settar fram tillögur um hvernig megi stórefla afreksíþróttastarf í landinu með fjölbreyttum hætti, styðja betur við afreksíþróttafólk og efla tengsl milli skólakerfisins, íþróttafélaga og sveitarfélaga. Vésteinn Hafsteinsson, Afreksstjóri ÍSI, leiddi starfshópinn sem vann að skýrslunni fyrir mennta- og barnamálaráðuneytið.

Hildur Karen Aðalsteinsdóttir, verkefnisstjóri afreksíþróttasviðs FVA, var einn af fjórum fulltrúum framhaldsskólanna sem tók þátt í vinnu við kafla um hlutverk framhaldsskólanna í afreksstarfi. Í þeim kafla kemur m.a. fram að afrekssvið og íþróttabrautir framhaldsskólanna geta gegnt lykilhlutverki í að draga úr brotthvarfi úr íþrótta- og æskulýðsstarfi, sem er allt of algengt á framhaldsskólaaldri.

Í skýrslunni er m.a. lagt til að starfsemi afrekssviða framhaldsskólanna verði samræmd með skýrum reglum og gæðaviðmiðum. Einnig er lagt til að hin nýja Afreksmiðstöð Íslands veiti skólunum sérfræðiráðgjöf og faglegan stuðning. Til að styrkja afrekssviðin og efla tengsl framhaldsskóla, íþróttafélaga og sveitarfélaga er jafnframt lagt til að framhaldsskólar geti sótt um sérstakan fjárhagslegan stuðning til að mæta hluta af kostnaði sem fellur til vegna aukinnar starfsemi afrekssviðanna.

Hér má lesa skýrsluna í heild sinni.

Hildur Karen og Vésteinn