Í dag, föstudaginn 19. desember 2025, voru 50 nemendur brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Vesturlands.  Stór hluti útskriftarnema hefur lokið dreifnámi í húsasmíði eða 17 nemendur. Samtals hafa 28 lokið námi í húsasmíði, þar af 3 konur. 2 nemendur eru að ljúka bæði húsasmíði og viðbótarnámi til stúdentsprófs. 3 nemendur ljúka meistaranámi, 1 nemendi lýkur námi í vélvirkjun. Alls hafa 17 nemendur lokið stúdentsprófi þar af 4 sem eru að ljúka viðbótarnámi til stúdentsprófs eftir iðnnám.

Dröfn Viðarsdóttir, aðstoðarskólameistari, setti athöfnina og Steinunn Inga Óttarsdóttir skólameistari flutti ávarp. Þar ræddi hún meðal annars um biðina miklu. Biðina sem við erum ekkert sérstaklega góð í, hvort sem það er biðin eftir að prófin klárist, útskriftinni, iðnaðarmönnum eða jólunum. Einnig ræddi hún mikilvægi menntunar og tungumálsins okkar. Lestur bóka stendur höllum fæti en við getum öll sameinast um að gera betur.

Bergþór Edda Grétarsdóttir og Ísólfur Darri Rúnarsson fluttu jólalagið ,,Það snjóar“, erlent lag við texta Valdimars Braga Skúlasonar. Flosi Einarsson sá um undirspil.

Ólafur Páll Gunnarsson útvarpsmaður með meiru og fyrrverandi nemandi við skólann flutti ávarp. Óli Palli minntist góðra tíma sem nemandi við FVA og ráðlagði útskriftarefnum að elta drauma sína, fylgja hjartanu, gera alltaf sitt besta og sætta sig ekki við lélegt. Mikilvægast væri að vera góð manneskja, vera dugleg og hafa gaman.

Fyrir hönd útskriftarnema flutti Ólafur Kristinn Bragason ávarp þar sem hann rifjaði á skemmtilegan hátt upp mis gagnlegar kennslustundir, mis nytsamlegt námsefni, verkefni og ráðleggingar kennara. Hann ítrekaði að nemendur ættu að vera stoltir af sér og gera alltaf sitt besta.

Eftirtaldir nemendur fengu verðlaun og viðurkenningar, nöfn þeirra sem gefa verðlaun eru í sviga;

  • Ásdís Erlingsdóttir hlaut viðurkenningu fyrir störf að félagsmálum (Minningarsjóður Karls Kristins Kristjánssonar)
  • Björg Thorberg Sigurðardóttir fyrir ágætan árangur í tréiðngreinum (Sjammi)
  • Guðmundur Hákon Halldórsson fyrir ágætan árangur í tréiðngreinum (Trésmiðjan Akur)
  • Hrannar Pétursson fyrir ágætan árangur í tréiðngreinum (SF smiðir)
  • Ingi Dór Garðarsson hlaut hvatningu til áframhaldandi náms (Minningarsjóður Lovísu Hrundar).
  • Karl Sigurjónsson fyrir ágætan árangur í tréiðngreinum (SF smiðir)
  • Þorgerður Alma Guðmundsdóttir hlaut hvatningu til áframhaldandi náms (Minningarsjóður Lovísu Hrundar).