fbpx

Miðvikudaginn 14. september fóru útskriftarnemar rafiðnaðardeildar FVA í vettvangsferð til fyrirtækjanna HS Orku í Svartsengi og Landsnets sem staðsett er í Grafarvogi í Reykjavík. Ferðin var í tengslum við lokaáfanga rafmagnsfræðinnar sem nemendurnir eru að stúdera.

Í Svartsengi fengu nemendur kynningu á HS Orku en þar er gufuorku umbreytt yfir í raforku. Nokkuð flókið ferli er frá því að gufuorkan er leidd upp úr djúpum háhita borholum og umbreytt yfir í raforku sem síðan seld er til notenda. Að loknum fyrirlestrum var hópurinn leiddur í gegnum eitt stöðvarhúsið þar sem orkan er leidd inn í hverfla (túrbínur) sem knýja rafala sem framleiða rafmagn eftir lögmálum rafmagnsfræðinnar. Vakti athygli nemenda hversu allt var snyrtilegt og þrifalegt hjá fyrirtækinu. Slíkt er til algjörrar eftirbreytni innan veggja FVA.

Eftir góðgerðir hjá Suðurnesjamönnum var haldið til Landsnets þar sem fríður hópur stjórnenda tók á móti hópnum. Nemendur fengu skemmtilega og líflega kynningu á fyrirtækinu sem er einstakt fyrirtækja hér á landi. Það sér um orkudreifingu rafmagns um Ísland, allt frá 11.000 Voltum og upp í 220.000 Volt. Orkufreki iðnaðurinn er þurftarmikill hér á landi og munar mikið um stóriðjuna á Grundartanga sem tekur stóran hluta framleiddri raforku til sín. Nokkrir nemendanna hafa starfað þar í sumarvinnu og könnuðust vel við málefnið.

Hópurinn sendir sínar bestu kveðjur til þessara tveggja fyrirtækja og þakkar góða móttökur. Eins og einn nemandinn komst að orði þegar rennt var inn á bílaplan FVA, „góður dagur er að kveldi kominn“.