Hópur nemenda og starfsfólks skoðaði gosstöðvarnar í Geldingahrauni sl. laugardag. Leiðsögumenn í ferðinni voru þeir Finnbogi Rögnvaldsson og Óskar Knudsen.
Lagt var af stað í rútu frá skólanum kl. 10, sól skein í heiði en nokkuð svalt og norðan andvari. Nemendur fengu leiðsögn á leiðinni og góða fræðslu um jarðfræði Reykjanesskaga. Sjálf gangan að eldstöðinni gekk vel. Á mörkum Geldingadala og Merardala sat hópurinn um stund og dáðist að því sem fyrir augun bar, stórfenglegast fannst þeim að horfa á beljandi hrauná streyma frá gígnum sem mallaði án mikillar strókavirkni. Einhverjir ætluðu að koma aftur við fyrsta tækifæri.
Rútan skilaði svo öllum hópnum aftur heim um fimmleytið og að baki var skemmtileg ferð sem fer í sarp minninganna.