Útskriftarnemar í rafvirkjun í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi gera lokaverkefni í áfanganum VLVV3LR09 sem unnið er að alla önnina. Grein eftir Sævar Berg birtist um þetta í Skessuhorni. Lokaverkefnin á haustönn voru mjög svo metnaðarfull og flott. Hér má sjá hvað nemendur fengust við og var ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur:
- Róbot-armur sem stjórnast af handahreyfingum. Myndavél skynjar hendi og færir róbotarminn um leið og hendin færist. Notast er við vitvél og forritun í Phythoon.
- Stýring á heitum potti þar sem heitu og köldu vatni er stjórnað með Unitronics-iðntölvu. Hægt er að stilla hita í pottinum nákvæmlega þar sem rennslinu er stýrt með mótorlokum.
- Reglunartankur þar sem tankur er fylltur upp að tiltekinni prósentu og aftur niður í 0%. Stjórnað með iðntölvu og hraðabreytum.
- Vekjaraklukka sem opnar gluggann og dregur upp gardínuna þegar hún hringir. Einnig hægt að handstýra glugganum og gardínunum. 3D prentað.
- Miðlæg gatnamót sem hægt er að stjórna með tveimur iðntölvum. Flott líkan sem verður eftir í skólanum og notað áfram í kennslu.
Þessi verkefni virka öll og eru stórglæsileg og sjá má dæmi á meðfylgjandi myndum. Nemendur beita fjölbreyttri kunnáttu og þekkingu, nota allt sem þeir hafa lært fram að þessari síðustu önn. Nemendur þurftu að sýna sjálfstæð vinnubrögð og skipuleggja sig vel til að halda á spöðunum alla önnina.
Framgangsskýrslum er skilað tvisvar sinnum á önninni og endað á að sýna verkefnið og kynna það fyrir kennurum rafiðndeildar og samnemendum.
Flottir nýútskrifaðir rafvirkjar hér á ferð, gangi ykkur vel!
Sævar Berg Sigurðsson
Höf. er kennari í rafvirkjun í FVA