Síðastliðinn fimmtudag stóð NFFA fyrir forkeppni vegna Söngkeppni framhaldsskólanna. Fór keppnin fram í Tónbergi og var hin glæsilegasta. Fimm söngvarar stigu á svið og fluttu sitt atriði og á meðan dómnefnd réði ráðum sínum fengu áhorfendur að sjá atriði úr söngleiknum Útfjör sem frá Leiklistarklúbburinn Melló mun frumsýna á fimmtudaginn. Einnig stóð góðgerðafélagið Eynir fyrir köku- og sælgætissölu til styrktar flóttafólki frá Úkraínu.
Svo fór að Hanna Bergrós Gunnarsdóttir sigraði með flutningi sínum á laginu Killing me softly. Mun hún því keppa fyrir hönd FVA í Söngkeppni framhaldsskólanna sem fram fer á Húsavík sunnudaginn 3. apríl. Keppnin verður send út í beinni útsendingu á RUV. Innilega til hamingju Hanna Bergrós!