fbpx

Nemendur á fimmtu önn í rafvirkjun fóru í vettvangsferð í Hellisheiðarvirkjun og í heimsókn til Veitna á Akranesi 19. september sl.

Sem kunnugt er þá er Hellisheiðarvirkjun jarðvarmavirkjun á sunnanverðu Hengilssvæðinu. Á svæðinu hefur verið stunduð djúp borun sem samanstendur af um þrjátíu borholum sem að jafnaði eru um 2000 metrar að dýpt. Úr holunum streymir jarðhitavökvi, gufa og vatn, sem er um 170°C sem dælt er upp úr jörðinni undir miklum þrýstingi. Gufan knýr túrbínur til raforkuframleiðslu og fer rafmagnið inn á dreifikerfi Landsnets.

Hellisheiðarvirkjun er í eigu Orku náttúrunnar, ON, sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, OR, en þess má geta að Akurnesingar eiga 5% í OR. 

Vel var tekið á móti hópnum af þeim Herði Péturssyni leiðtoga í öryggismálum og Óskari Guðmundssyni stöðvarstjóra. Farið var yfir virkni stöðvarinnar og öryggisreglur sem að starfsmönnum og gestum snýr. Fengu nemendur að líta yfir framleiðslusalinn en allar vélarnar í virkjuninni koma frá Mitsubishi í Japan. Eins fengu nemendur fræðslu í jarðfræði og hvar háhitasvæði er að finna á Íslandi í sýningarsal virkjunarinnar.

Af Hellisheiði var komið við í KFC í Mosfellssveit og smakkað á þjóðarréttum Ameríkana sem búsettir eru í héraðinu Kentucky.

Hjá Veitum á Akranesi tóku á móti hópnum þeir Friðrik Rúnar Halldórsson, Ásmundur Jónsson og Ómar Logi Þorgeirsson, allt fyrrum nemendur í rafiðnaðar- og málmiðnaðardeildum FVA. Veittu þeir góðan fyrirlestur um uppbyggingu rafveitukerfisins á Akranesi, allt frá því að 66kV koma frá Brennimel og þar til 230/400V eru komin inn í húsin til okkar á Skaganum. Virkilega fróðlegur og vel upp settur fyrirlestur hjá þeim félögum.

Ferðalagið enda í Aðveitustöðinni XX20 við Smiðjuvelli á Akranesi þar sem nemendurnir fengu loksins að sjá háspennubúnað en þeir hafa verið að lesa sér til um slíkan búnað auk þess sem þeir hafa gert fjöldann allan af verkefnum.

Fallegur og fróðlegur dagur að enda kominn þegar rútan renndi upp að FVA kl. 15:30. Takk fyrir allir leiðsögumenn sem tókuð á móti okkur og gerðu daginn eftirminnilegan!

Nemendur 5. annar rafvirkjunnar í Heillisheiðarvirkjun
Gallvaskur hópur rafiðnaðarnemenda FVA og starfsmanna Veitna við aðveitustöðina á Akranesi