fbpx

Í gær bauð Kennarafélag FVA ásamt starfsfólki skólans, starfsfólki Grundaskóla og leikskólans Teigasels í kaffi á sal fjölbrautaskólans. Upphaflega átti kaffisamsætið að vera samstöðufundur með félagsmönnum KÍ úr þessum tveimur skólum sem hafa verið í verkfalli. Það breyttist sl. sunnudagseftirmiðdag þegar dómur Landsréttar var birtur. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig fólkinu hefur liðið að fara aftur í skólana undir þessum kringumstæðum. Ákveðið var því að halda sig við kaffisamsætið þrátt fyrir að verkfalli hafði verið aflýst.

Boðið var upp á kaffihlaðborð eins og var til sveita hér forðum, rjómatertur, brauðtertur og kleinur, og það var nóg til og „meira frammi“. Dreifðu kennarar frá þessum þremur skólum sér um salinn og ræddu um stöðu mála og greinilegt er að það vill ekki láta staðar numið við þessar aðstæður. Fólk var ósátt og lét í sér heyra í samræðum en fyrst og fremst þá þótti fólki gott að hittast.

Með sanni má segja að vel hafi tekist til en áætlað er að milli 80 – 90 manns hafi sótt heimboðið.