fbpx

Það hefur verið líf og fjör á afrekssviði FVA í haust og mikið um að vera. Metfjöldi leggur stund á nám á sviðinu um þessar mundir, eða 63 nemendur. Íþróttagreinarnar eru líka fjölbreyttari sem aldrei fyrr, en á afrekssviði er nú verið að æfa fótbolta, körfubolta, fimleika, sund, golf, keilu og badminton.

Fréttaritari FVA heyrði í Helenu Ólafsdóttur, sviðsstjóra Afrekssviðs, og forvitnaðist um málið: „Það er virkilega ánægjulegt hve fjölbreytnin er mikil í þeim íþróttagreinum sem verið er að æfa núna. Ég held að það séu ekki mörg svið sem geta boðið upp á svona marga valkosti. Þetta er auðvitað ekki hægt nema með velvild þeirra sem standa að sviðinu og þeirra frábæru þjálfara sem við erum með. Aðstæður á Akranesi eru líka mjög góðar og nálægðin gefur okkur meiri möguleika en t.d. öðrum skólum.“

Þeir nemendur sem eru á afrekssviði æfa sína grein tvisvar í viku á skólatíma. Að auki fá þau einn tíma í styrktarþjálfun og einn bóklegan tíma í viku. Meðfylgjandi myndir voru svo teknar nýverið þegar hópurinn fékk fatnað frá Nike afhentan.

„Þessi mikli fjöldi nemenda hefur staðið sig virkilega vel og sýnt mikinn áhuga. Þau hafa stundað sínar æfingar vel og eru með sín markmið á hreinu“, segir Helena og bætir við: „ég vil nota tækifærið og þakka öllum nemendum, þjálfurum og mínum yfirmönnum fyrir samstarfið á önninni og vona að allir njóti hátíðanna.“

Nánari upplýsingar um afreksíþróttasvið FVA er að finna hér.