fbpx

Þann 11. mars sl. fór fram lýðræðisfundur í FVA þar sem nemendur og starfsmenn ræddu m.a. umbætur í skólastarfinu og hvar tækifærin liggja. Nú hafa stjórnendur skólans farið yfir niðurstöður fundarins og áfram verður unnið með þær á næstunni. Stjórn NFFA fær einnig niðurstöðurnar í hendur og getur ný stjórn þá unnið áfram með þau atriði varðandi félagslíf o.fl. sem að henni snúa.

Helstu niðurstöður eru þessar:

 • Spurt var fyrst um stundatöflu. Hugmyndir komu fram um að hafa fundargat í fyrsta tíma að morgni í stundatöflu, eða lengja hádegið. Helst er hallast að því að hafa fundargatið tengt hádeginu á miðvikudögum, hafa þá líka svigrúm fyrir umsjónartíma og viðburði á vegum NFFA og góðan tíma fyrir góða matinn í hádeginu.
 • Ábending kom fram um að fá orkudrykki og sykraða drykki í mötuneytið en það gengur ekki í heilsueflandi framhaldsskóla. Vatn er bara besti drykkurinn!
 • Ábendingar um að beina því til kennara að sleppa ekki frímínútum í tvöföldum tíma verður komið á framfæri.
 • Almenn ánægja kom fram með að skólinn sé búinn kl 14 á föstudögum.
 • Óskir komu fram um áfanga sem nemendur vilja hafa í frjálsu vali og verður það skoðað fyrir hvert valtímabil sem framundan er. M.a. komu tillögur að Fantasy League áfanga, forritun, fjármálaáfanga, kínversku og handavinnu.
 • Spurt var um hvort áfangar stæðust ekki væntingar eða ættu hrós skilið og voru nokkrir nefndir af hvoru tagi og verður unnið með það áfram.
 • Almenn ánægja var með fyrirkomulag námsmatsdaga og miðannarmats. Einhverjar breytingar eru þó fyrirhugaðar á næsta skólaári, s.s. að stundaskrá verði óbreytt þá viku en föstudagur verði námsmats- og miðannarmatsdagur. Ósk kom fram um að hafa meira símat, sem er í samræmi við þróunina víðast hvar.
 • Almenn ánægja var með Opna daga, sumir vildu fleiri valkosti og fleiri daga. Það er vel hægt að gera ef nemendur koma meira inn sjálfir með viðburði, en eins og framkvæmdin hefur verið eru það okkar góðu kennarar sem hafa frumkvæðið og stýra þessu. Nemendur: Endilega fjölmennið í undirbúningsnefndina þegar kallað verður eftir því.
 • Ábendingar komu fram um að húsgögn væru úr sér gengin í sumum kennslustofum, net lélegt sums staðar og að klukkur og fjöltengi vantaði. Einnig að það vantaði fleiri flokkunartunnur og betri hátalara. Þessu verður kippt í liðinn þar sem þarf.
 • Ánægja ríkti með að hafa kennslustofur opnar en það var tekið upp í kófinu til að forðast hópamyndun á göngunum. Stofur verða því áfram opnar en hópar mega myndast um leið og kófið gengur niður.
 • Hugmynd kom fram um borðtennisborð og körfuboltaspjald, fleiri sófa og kósíhorn. Þetta er í skoðun!
 • Alltof fáir nemendur lesa fréttabréfið okkar, Skruddu, en þar er margt gott sem á erindi við bæði nemendur og starfsfólk. Sama á við um facebooksíðu skólans. Þó nokkrir fylgjast með nýjum vef fva.is sem almenn ánægja er með. Fleiri fylgjast með FVA á insta, þið sem ekki eru að fylgja okkur þar, bætið úr því núna!
 • Kallað var eftir hugmyndum um aukið lýðræði og jafnrétti í FVA. Þótti nemendum lýðræði virkt og jafnrétti í heiðri haft.  Ábendingar um að gera enn betur, um viðburði og félagslíf, geta nemendur alltaf komið með til NFFA og skólameistara.
 • Verið er vettvangur fyrir jafningjafræðslu eða aðstaða til jafningjafræðslu þar sem nemendur aðstoða aðra nemendur í náminu. Fram kom að nemendur eru ekki að nýta sér þetta nógu mikið. Þetta er frábært tækifæri og alveg ókeypis, gott að læra saman í t.d. stærðfræði! Ef eftirspurn er að fleiri námsgreinum í Verið verður brugðist strax við því, hafið samband við skólameistara.
 • Ekki vissu margir af ábendingarhnapp neðst á upphafssíðu á vef skólans þar sem hægt er að tilkynna einelti og ofbeldi og annað. Tékkið á því!

Í lokin voru nemendur beðnir um 3-5 orð sem lýsa skólanum okkar. Þá streymdu inn falleg orð sem sjá má hér:

Takk allir sem tóku þátt í lýðræðisvinnunni 11. mars, takk fyrir hugmyndir og ábendingar. Saman komum við umbótum áleiðis öllum til heilla.