fbpx

Í morgun, 22. mars fóru nemendur 6. annar í rafvirkjun í vettvangsferð til RARIK í Borgarnesi. Ferðin hafði staðið til í nokkurn tíma en vel var tekið á móti nemunum  af starfsmönnum RARIK.

Eins og alþjóð veit þá sinnir RARIK dreifingu rafmagns til notenda um allt land. RARIK í Borgarnesi sinnir hluta af landinu, þ.e. frá Kjósinni, upp allan Borgarfjörð, hálfu Snæfellsnesi og yfir í Reykhólasveit.

Starfsmenn RARIK höfðu stillt upp átta starfstöðvum þar sem nemendum var skipt upp í hópa sem voru jafnmargir stöðvunum og svo voru þeir látnir ganga á milli til að kynnast öllum þeim háspennubúnaði sem RARIK sér um og hefur yfir að ráða. Stöðvarnar kynntu drónaflug (sem er mikið notað við eftirlit og bilanaleit), rafmagnsmælastöð, bilanaleitastöð háspennustrengja, háspennurofa, aflvélar, háspennusamsettningar og farartækin sem RARIK menn þurfa að nota við vinnu sína.

Að endingu bauð RARIK upp á pizzu veislu þar sem um 15 pizzum var sporðrennt eftir erfiði morgunsins.

Starfsmönnum RARIK er þökkuð móttakan og ekki síst – fræðslan sem ekki fæst í skólunum!