fbpx

Opnir dagar í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi standa 21.-22. febrúar en slíkt uppbrot á kennslu á sér langa hefð í skólanum. Aldís Ýr og Hildur Karen hafa séð um skipulagið í ár af metnaði og eldmóði.

Í boði verður fjöldi viðburða sem hafa það markmið að fræða og skemmta og skapa tilbreytingu í skólastarfinu. Meðal þess sem er í boði er Gettu betur keppni þar sem harðsnúið lið FVA keppir við skólameistara og tvo kennara, hægt verður að fara í Paint-ball, parkour, pílu og pútt, fá að vita allt sem varðar kynlíf, en þú þorðir ekki að spyrja um, skíðaferð verður í Bláfjöll, hraðlestur og prjón, kynning á björgunarsveitarstörfum, jóga, Rush og teygjur, læra að búa til krem og maska, baka köku, sjóða súpu, logskurður og rafsuða, fablab og tækniteikning og margt fleira. Fyrirkomulagið er þannig að nemendur velja sér fjóra viðburði og skrá sig í þá á vef skólans.

Á fimmtudaginn er kennsla til hádegis, um kvöldið er árshátíð NFFA, nemendafélags FVA. Þar verður mikið um dýrðir, kvöldverður og skemmtiatriði í sal skólans en síðan verður dans stiginn á Gamla Kaupafélaginu. Stjórn NFFA hefur staðið í ströngu við undirbúning árshátíðarinnar sem verður haldin „venjulega“ í fyrsta skiptið í þrjú ár vegna Covid.