Að morgni þess 30. janúar hélt hópur vaskra útskriftarnema af rafvirkjabraut til höfuðborgarinnar. Tilgangur ferðarinnar var að heimsækja nokkur fyrirtæki og skoða starfsemi þeirra. Fyrsta stoppið var í aðalbækistöðvum JBT Marel, sem er staðsett í Garðabæ. Þar tók á móti okkur sérstakur kynningarfulltrúi fyrirtækisins auk framleiðslustjórans og eins rafvirkja.

Við þáðum veitingar og farið var yfir sögu fyrirtækisins, sérstöðu þess og okkur veitt innsýn í hvernig er að starfa hjá fyrirtækinu. Eftir að hafa horft á nokkur myndbönd og rætt við gestgjafana var hópnum skipt í tvennt. Hóparnir gengu um fyrirtækið þar sem framleiðsluhlið þess var skoðuð. Það vakti athygli okkar hversu snyrtilegt, hljóðlátt og vel skipulagt vinnuumhverfið er. Í þessum hluta var okkur því miður ekki heimilt að taka myndir.

Eftir að við kvöddum Marel ákváðum við að breyta planinu og kynna okkur sænska matagerðarlist með því að heimsækja veitingastað í næsta nágrenni.

Þar var okkur vel tekið, allir fundu mat við sitt hæfi og fengum við skjóta afgreiðslu. Hádegisverðurinn gekk í raun það fljótt fyrir sig að við enduðum með nokkurn tíma aflögu sem var eytt með því að fara í feluleik. Í honum nýttist okkur vel húsgagnaverslun sem rekin er samhliða veitingastaðnum. Í leiknum fór með sigur af hólmi Arnbjörn Grétarsson.


Eftir matinn var farið í heildverslunina Reykjafell í Skipholti. Þar tók á móti hópnum sölustjóri raflagnadeildar sem fór yfir starfsemi fyrirtækisins. Við honum tók sölustjóri iðnstýringa sem fór yfir vöruúrvalið í þeirri deild.

Að þessu loknu gengum við um húsnæðið, þar sem við skoðuðum lagerinn, töfluverkstæðið auk þess að virða fyrir okkur úrval innlagnaefnis og verkfæra í búðinni. Það er nokkuð þröngt á þingi í þessu húsnæði þar sem að starfsemin er löngu búin að sprengja húsnæðið utan af sér. Það verður ekki farin önnur nemendaferð á þennan stað, en líklega í nýtt húsnæði í Korputorgi, þangað sem fyrirtækið flytur nú í lok árs.

Ferðinni lauk með heimsókn í Smith & Norland. Fyrirtækið er gamalgróið fjölskyldufyrirtæki sem selur allt frá vöfflujárnum til virkjana. Fyrirtækið leggur áherslu á hágæða vörur frá þekktum þýskum birgjum. Við fórum um búðina í fylgd sölustjórans þar sem við skoðuðum allt mögulegt efni sem rafvirkjar koma nálægt í sínum störfum. Við heimsóttum heimilistækjaverkstæðið, gengum í gegnum heimilistækjabúðina og hlustuðum á fyrirlestur frá sölustjóranum auk þess að horfa á ýmiskonar kynningarefni frá ýmsum birgjum. Í lok heimsóknarinnar voru nemendur leystir út með gjöfum, glænýjum bíturum frá Haupe.

Ferðin var vel heppnuð í alla staði. Nemendur voru mjög áhugasamir, fylgdust vel með því sem fyrir augu bar og fóru sáttir heim.