Í dag er nafn skólans utan á húsinu fallega roðagyllt. Ástæðan er sú að Soroptimistar um allan heim munu í ár eins og mörg undanfarin ár, slást í för með um 6000 samtökum í 187 löndum sem leidd eru af Sameinuðu þjóðunum til að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi gegn stúlkum og konum með þátttöku í 16 daga átakinu #roðagyllumheiminn, #orangetheworld. Roðagyllti liturinn sem er litur átaksins táknar bjartari framtíð án ofbeldis gegn konum og stúlkum. Átakið hefst 25. nóv og lýkur 10. des.
Markmið 16 daga átaksins er að beina athyglinni að alvöru kynbundins ofbeldis, fræða almenning og hvetja til að ofbeldið verði stöðvað. Til þess þarf vitundarvakningu.
Sú hefð hefur skapast að ákveðið málefni er i í brennidepli ár hvert. Áhersla íslenskra Soroptimista mun að þessu sinni beinast að mismunandi birtingu ofbeldis, undir yfirskriftinni ‚Þekktu rauðu ljósin‘. Þau eru flokkuð í sex rauð ljós: Andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, fjárhagslegt ofbeldi, stafrænt ofbeldi og að lokum eltihrellir. Rauðu ljósin eru viðvörunarmerkin sem má greina hjá þeim sem fyrir ofbeldinu verða og ef við lærum að þekkja þau þá getum við gert eitthvað til að hjálpa viðkomandi.
Þekkjum rauðu ljósin!