fbpx

Á vorönn 2023 var unnið að samskiptasáttmála FVA og haldnar vinnustofur með nemendum og starfsfólki skólans. Þar var metið hvers konar hegðun við erum sammála um að sé æskileg fyrir góð samskipti sem ásamt gildunum jafnrétti – virðing – fjölbreytileiki styðja við stefnu skólans og EKKO forvarnaráætlun. Til urðu eins konar leikreglur sem við höldum á lofti í dagsins önn og stuðlum þannig að betra skólaumhverfi og vinnustað.

Ítarlegri upplýsingar um góð samskipti:

Fagmennska

Verum yfirveguð í framkomu og byggjum upp traust. Kynnum okkur málin vel, leyfum fólki að taka þátt, svörum erindum, virðum trúnað og verum fagleg í verkum.

Við ætlum að:

  • Gæta orða okkar
  • Kynna okkur málin áður en við drögum ályktanir eða gefum álit
  • Sýna öllum virðingu, hlusta á sjónarmið annarra
  • Svara beiðnum (fyrirspurnum) og tölvupóstum sem okkur berast, svara í síma og hringja til baka þegar þess er vænst
  • Sýna auðmýkt og geta viðurkennt mistök
  • Virða trúnað og þagnarskyldu
  • Gefa skýr svör og skýr skilaboð
  • Virða mörk annarra og forðast gróft tal eða særandi hegðun
Hreinskilni

Látum í okkur heyrast ef öryggi eða meðferð á nemenda er ekki í lagi eða vellíðan samstarfsfólks er í hættu. Ekki þegja en ekki tuða heldur! Gagnrýnum málefnalega, þökkum ábendingar og verum dugleg að hrósa fyrir það sem vel er gert.

Við ætlum að:  

  • Koma málefnalegum ábendingum beint til þess sem þarf að heyra, helst í einrúmi – tölum við fólk en ekki um það
  • Hrósa hvert öðru fyrir vel unnið verk
  • Segja frá ef manni er misboðið
  • Taka vel á móti ábendingum, þakka fyrir þær – þannig lærum við
  • Vera hreinskilin en nærgætin
  • Biðjast afsökunar þegar okkur verður á
  • Hjálpa hvert öðru
Jafnræði

Gætum jafnræðis í samskiptum. Reglurnar okkar eiga jafnt við um alla, óháð bakgrunni, stétt eða stöðu. Við líðum ekki vanvirðingu, hroka, áreitni eða aðra óæskilega hegðun gagnvart neinum. Við skiptum öll jafnmiklu máli.

Við ætlum að:

  • Taka tillit til þess að við erum ólík, af ólíkum uppruna og með ólíka reynslu
  • Fagna fjölbreytileika og virða ólíka menningu fólks, trú og kyn
  • Veita öllum sömu tækifæri
  • Koma eins fram við alla nemendur og starfsfólk, óháð aldri, kyni, þjóðerni, trú, kynhneigð eða öðrum þáttum
  • Láta eitt yfir alla nemendur ganga þegar við framfylgjum reglum, t.d. reglum skólans
  • Sýna í verki að við erum öll jafn mikilvæg
  • Gæta jafnræðis í hvívetna
Skilningur

Gefum okkur tíma til að hlusta og spyrja áður en við tökum ákvarðanir. Upplýsum fólk á skýran hátt til að forðast misskilning.

Við ætlum að:

  • Husta af athygli á það sem sagt er
  • Spyrja til að skilja betur: Skilja en ekki misskilja
  • Miðla upplýsingum á skýran hátt
  • Ganga úr skugga um að skilningur sé til staðar
  • Setja sig í spor annarra
  • Tala saman til að leysa mál
Umhyggja

Sýnum nærgætni og hluttekningu í samskiptum. Nemendur og starfsfólk geta átt erfitt og verið að glíma við sín vandamál. Setjum okkur í spor annarra og sýnum hlýju, nærgætni og skilning.

Við ætlum að:

  • Gæta að því hvernig við orðum hlutina, það hafa ekki allir sama húmor
  • Bera umhyggju fyrir því að nemendur nái árangri í lífinu
  • Hlusta og setja sig í spor annarra
  • Koma fram við aðra eins og við viljum að sé komið fram við okkur
  • Sýna umhyggju í tali og tjáningu og virða trúnað
  • Vera jákvæð, vingjarnleg og hlý í viðmóti; hughreysta og draga úr kvíða
  • Vera til staðar og sýna áhuga
Viðmót

Tökum vel á móti nemendum, forráðamönnum og samstarfsfólki á hverjum degi; fyrstu kynni hafa áhrif á allt sem á eftir kemur; kurteisi kostar ekkert – munum hlýlegt viðmót, tillitssemi og hjálpsemi, alltaf.

Við ætlum að:

  • Bjóða góðan daginn. Það er góð byrjun á deginum.
  • Koma jafnt fram við alla
  • Taka vel á móti öllum sem til okkar koma
  • Veita fólki athygli og vera vingjarnleg
  • Vera stundvís
  • Heilsa, brosa og bjóða fram aðstoð
Virðing

Við eigum öll skilið virðingu og að á okkur sé hlustað. Allar raddir eiga að fá að heyrast og allir hlekkir í keðjunni skipta máli, nemendur, forráðamenn og allt starfsfólk. Virðum tíma og framlag annarra.

Við ætlum að:

  • Bera virðingu fyrir tíma annarra, mæta á réttum tíma, starfsfólk og nemendur
  • Ganga vel um skólahúsnæðið, s.s. kennslustofur og matsal og virðum eigur annarra
  • Halda ró okkar, vera kurteis, yfirveguð og fagleg
  • Hlusta þegar fólk er að tala (gullna reglan)
  • Taka eftir því sem vel er gert, hrósa og þakka
  • Virða jafnvægi á milli vinnu og einkalífs
  • Virða mörk og koma vel fram við aðra