fbpx

Á Þorrablóti Skagamanna, sem fram fór í streymi í gærkvöldi, var tilkynnt um val á Skagamanni ársins. Að þessu sinni er það stór hópur fólks, eða starfsfólk leik-, grunn- og framhaldsskóla á Akranesi og frístundastarfs í bæjarfélaginu. Skagamenn ársins eru því starfsmenn Akrasels, Garðasels, Vallarsels, Teigasels, Brekkubæjarskóla, Grundaskóla, Fjölbrautaskóla Vesturlands og Frístundamiðstöðvarinnar Þorpsins. Það var Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri sem kynnti Skagamenn ársins. Arnar Sigurgeirsson tók við viðurkenningunni fyrir hönd FVA, blómum frá Módel og listaverki eftir Bjarna Þór.

Starfsfólk allra skólastiga á Akranesi eru Skagamenn ársins! (ljósm. Skessuhorn)

Í umsögn um valið segir: „Líkt og árið 2020 þá mæddi mikið á starfsfólki í leik-, grunn og framhaldsskólum og frístundastarfi bæjarins á árinu 2021. Síbreytilegar sóttvarnarreglur vegna COVID-19 hafa verið mikil áskorun fyrir stjórnendur og starfsfólk skólanna við að sinna kennslu eins vel og hægt er miðað við aðstæður. Staðnám hefur verið í gangi að mestu leyti á þessu ári með þeim skilyrðum sem hafa verið í gildi hverju sinni. Grímuskylda, fjarlægðarmörk, sóttkví, smitgátt, einangrun hafa verið óþarfalega fyrirferðarmikil í skólastarfinu ásamt því að margir hafa þurft að kljást við loftgæða- og rakavandamál í skólahúsnæði. Þessar aðstæður hafa kallað á útsjónarsemi, skipulag og breytta kennsluhætti til að geta haldið skólastarfinu úti á árinu.“

Akraneskaupstaður sendir öllu starfsfólki leik-, grunn- og framhaldsskóla á Akranesi og frístundastarfi bæjarins hamingjuóskir með titillinn Skagamenn ársins 2021.