Nemendur og starfsfólk á Starfsbraut nýtti heldur betur góða veðrið síðustu daga á námsmatsdögum en þá er venjan að brjóta upp hefðbundna kennslu ásamt því að vinna lokaverkefni og taka kannanir.
Þau sem eru í Lýðheilsuáfanga hafa stefnt að því í vetur að fara í lengri gönguferð og unnið að því markmiði m.a. með reglulegum gönguferðum í nágrenni Akraness. Árangurinn lét ekki á sér standa því öll í hópnum fóru létt með að fara upp á Úlfarsfell við góðar aðstæður.
Nemendur í upplýsingatækni og starfsnámi gerðu sér glaðan dag og héldu í Paradísarlaut á sólríkum degi. Þau allra hörðustu stukku í svo í ískaldan lækinn til að kæla sig.
Einn nemandi á sviðinu okkar á nokkrar kindur fyrir utan Akranes og bauð samnemendum sínum í heimsókn í sauðburð. Frábær heimsókn og góð ganga sem endaði með heimsókn í Kallabakarí. Í annari ferð þá fórum við í Skorholt að skoða kindurnar og lömbin og svo á Miðfell að skoða kýrnar og kálfana. Það var virkilega skemmtilegt.
Sund- og íþróttahópurinn hefur haft það markmið undanfarin ár að heimsækja nýja sundlaug á hverri önn – og að sjálfsögðu var engin undantekning gerð núna. Í þetta sinn lá leiðin í Árbæjarlaug í Reykjavík á sólríkum og góðum degi.
Listahópurinn fór í listagöngutúr um Akranes, teiknaði umhverfið sitt, skoðaði listaverk í nærumhverfinu og endaði svo með íssmökkun, sem var frábær endapunktur á námsmatsdögunum í ár.







