fbpx

Litasýningin

Þessi sýning er afrakstur myndlistaráfanga starfsbrautar á vorönn. Eins og nafn sýningarinnar gefur til kynna hverfist hún um liti. Litir eru alls staðar í kringum okkur og eru svo stór þáttur af tilveru okkar að við gleymum stundum að gefa þeim gaum. Með grunnlitunum og hvítum þá er hægt að blanda alla heimsins liti. Litafræði er fræði um litina og snýst um það að leita uppi liti og búa til kynngimagnaðar litablöndur sem vekja hughrif. Hvernig finnum við uppáhaldslitinn okkar? Hvernig veljum við saman liti? Og hvernig lesum við í liti?

Vísindin hafa sýnt að því fleiri nöfn yfir liti sem við kunnum því fleiri liti sjáum við. Þetta dæmi sýnir hvernig tungumálið hefur áhrif á sjónskynið. Þegar við hættum að sjá og förum að horfa sjáum við allskonar liti í umhverfinu: í húsunum okkar, fötunum eða fuglunum sem svífa um loftin blá. Skyndilega verður liturinn ekki aukaatriði heldur leið til þess að skoða og skilja. Þegar við föngum form íslenskra fugla stingst gulur goggur svartþrastarins út, litskrúðugur goggur lundans fangar augað og gerðarlegur goggur svansins málast upp á blaðinu.