fbpx

Mismunandi flæði

Á sýningunni Mismunandi flæði má sjá vinnu nemenda sem sátu skúlptúráfanga á vorönn. Skúlptúr er ein af megingreinum myndlistar og það ætti ekki að koma á óvart því allir hlutir í kringum okkur og jafnvel við sjálf erum í þrívíðum heimi. Myndlist hjálpar okkur að skynja og skilja heiminn og hún er jafnframt leið til þess að leita inn á við. Með því að gefa hlutum form og setja mark okkar á efni þá getum við tjáð tilfinningar sem bærast innra með með okkur. Sköpun þarf tíma, yfirlegu og einbeitingu en veitir jafnframt frelsi og skemmtun. Ánægjan af því að skapa felst ekki síst í því að koma óefnislegum tilfinningum og  hugmyndum í fast form.

Ef fjöllin væru búin til úr leir og sjórinn úr epósí og ef heimurinn væri skúlptúr sem hægt væri að ganga í kringum, hvernig liði okkur þá? Þarf skúlptúr að vera manngerður eða er mannslíkaminn dæmi um fullkominn skúlptúr sem hefur framhlið og bakhlið? Ef við opnum augun birtast okkur alls staðar skúlptúrar á förnum vegi: byggingarnar verða risavaxnir skúlptúrar, grindverkin, blómapottarnir og jafnvel matur eins og epli og appelsínur fanga huga okkar vegna lögunar sinnar, áferðar og litar. Áður en við vitum af göngum við í gegnum heiminn eins og Lísa í Undralandi og gleðjumst og fögnum mismunandi formum, lögun og stærðarhlutföllum. Eftir allt er mannslíkaminn mælikvarði alls og mótar það hvernig við skynjum heiminn.