fbpx

Tannverndarvika hófst í gær (1.-5. feb) þar sem áhersla er lögð á orkudrykki og áhrif þeirra á tennur og heilsu almennt.

Um helmingur framhaldsskólanema drekkur einn eða fleiri orkudrykki á dag! Margir halda að orkudrykkir séu skaðlausir, jafnvel hollir, enda er auðvelt að draga þá ályktun þegar um sykurlausan vítamínbættan drykk er að ræða. Drykkirnir eru einmitt markaðssettir til þessa aldurshóps (m.a. af áhrifavöldum á samfélagsmiðlum) því það er framleiðendum í hag að gera neytendur snemma háða koffíni.

Allir orkudrykkir eru súrir og því glerungseyðandi, líka þeir sykurlausu! Enginn vill gular og skemmdar tennur en verri eru þó áhrif ofneyslu koffíns á svefn (þ.e. svefnleysi og minni djúpsvefni). Önnur einkenni ofneyslu koffíns eru t.d. skjálfti, höfuðverkur, magaverkur, niðurgangur, ógleði, hækkaður blóðþrýstingur og örari hjartsláttur (jafnvel hjartsláttartruflanir), kvíði, pirringur og eirðarleysi.

Hér má sjá frétt um Tannverndarvikuna á vef Embættis landlæknis. Í gærkvöldi komu þar inn glænýjar upptökur af þremur góðum erindum þar sem fjallað er um áhrif orkudrykkja frá ólíkum áttum. Við erum að tala um svefnleysi, fráhvörf og glerungseyðingu!

Nemendur FVA eru hér með sérstaklega hvattir til að skoða þessi myndbönd og líta í eigin barm varðandi orkudrykkjaneyslu. Foreldrar eru hvattir til að taka í taumana!