fbpx

Þann 9. apríl sl. fór fram forvarnadagur í Fjölbrautaskóla Vesturlands Akranesi, FVA. Fulltrúar frá Samgöngustofu og lögreglunni á Vesturlandi fluttu erindi fyrir nemendur um þá áhættuþætti sem snúa að ungum ökumönnum. Að þeim loknum var erindi frá Neyðarlínunni og nemendur fengu að heyra dæmi um 1-1-2 símtal tengt umferðarslysi og fylgst var með á skjá hvernig neyðarvörður brást við og kallaði út viðbragðsaðila. Í kjölfarið var sviðsett umferðarslys fyrir utan skólann þar sem nemendur fengu að fylgjast með starfi viðbragðsaðila á vettvangi viðkomandi slyss. Að deginum stóðu Fjölbrautaskóli Vesturlands (FVA), Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar, Neyðarlínan 112, Lögreglan á Vesturlandi, Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Samgöngustofa. Björgunarfélag Akraness sá um förðun á sjúklingum og drónaflug.

,,Ég tel að svona dagur hafi mikil áhrif á umferðaröryggi ungs fólks. Hér fá þau að heyra og sjá afleiðingar umferðarslysa og fá að kynnast hvað þau geta gert til að draga úr líkum á slysum. Auk þess er skemmtilegt að brjóta upp hversdagsleikann með degi sem þessum og ekki er verra ef dagurinn endar á grilluðum pylsum“ – segir Bjarklind Björk Gunnarsdóttir hjá Samgöngustofu.

Myndir frá forvarnardeginum.