fbpx

Í gær lauk árlegri bikarkeppni WestSide sem haldin var í Borgarnesi. Þar leiddu saman hesta sína nemendur FVA, FSN og MB og kepptu í fótbolta, körfubolta, bandý og blaki og loks var spurningakeppni. Bikarinn hefur verið á Skaga síðastliðin þrjú ár en að þessu sinni bar MB sigur úr býtum og hefur bikarinn til varðveislu til haustins 2025 en þá ætlum við að vinna hann til baka! En til hamingju MB!

Um kvöldið var haldið ball í MB sem fór afar vel fram og voru nemendur til mikillar fyrirmyndar í hvívetna. Þarna voru samankomnir á annað hundrað nemendur úr framhaldsskólunum þremur á Vesturlandi og skemmtu sér fallega saman. Enginn keppandi lét ósigur hafa áhrif á sig enda þurfa sannir íþróttamenn að kunna að tapa með sæmd. Þátttaka í edrúpotti var heilmikil, það voru engir pústrar á ballinu, bara dans og hopp og fjör. Það voru þreyttir en sælir nemendur FVA sem komu heim á Skaga um miðnættið og mættu eldhress í skólann í morgun.

Áfram unga fólkið á Vesturlandi!