fbpx

Starfsmenn FVA sitja ekki auðum höndum eftir að vinnudegi lýkur. Fólk hefur meðal annars gengið, hjólað, synt og spilað tennis af miklum móð því núna standa yfir tvö hreyfiverkefni: Göngum til góðs til Tene og Lífshlaupið.

Af því tilefni hélt hluti starfsmanna FVA í gær í fyrstu gönguna af mörgum fyrirhuguðum þetta árið. Hópurinn gekk út á Þyrilsnes í Hvalfirði þar sem gamlar stríðsminjar voru skoðaðar. En þannig er það nú að í seinna stríði voru Bandaríkjamenn með fallbyssu yst á nesinu og því fylgdi nokkurt umstang. Eins og sjá má af meðfylgjandi myndum má enn sjá móta fyrir undirstöðu bragga sem þarna stóðu og einhverra annarra mannvirkja. Á leiðinni fræddu þeir Finnbogi og Óskar hópinn um jarðfræði svæðisins en Þyrilsnes er í austurjaðri gamallar eldstöðvar sem hefur verið virk fyrir um 3 milljónum ára. Eftir að hún kulnaði hefur hana rekið út úr virka gosbeltinu sem nú liggur í gegnum Þingvelli. Miðja þessarar eldstöðvar hefur legið í grennd við Miðsand og og Bjarteyjarsand en eldstöðin er að nokkru leiti neðansjávar og mjög rofin.

Ferðin tókst í alla staði vel og á leiðinni til baka var spjallað um allt milli himins og jarðar í hálfrökkrinu á meðan hreyfingin var samviskusamlega skráð í Strava og í Lífshlaupið!

Næsta starfsmannaganga er fyrirhuguð mánudaginn 1. mars og verður auglýst betur þegar nær dregur.