LEIÐBEININGAR TIL NEMENDA
KOMI FRAM VITNESKJA UM EINELTI, ÁREITNI EÐA ANNAÐ OFBELDIGÁT-0001
Í stefnu FVA gegn einelti, kynferðislegri eða kynbundnu ofbeldi eða öðru ofbeldi kemur skýrt fram að slík hegðun er ekki liðin og á henni tekið komi fram vitneskja um hana. Í þessu tilviki verður að hafa í huga að engin tvö mál eru eins, sum eru nokkuð auðleyst en önnur flókin og krefjast meiri íhlutunar en tryggja þarf faglega nálgun við úrlausn allra mála. Því höfum við alltaf til hliðsjónar skilgreinda ábyrgðaraðila, skilgreindan farveg fyrir mál og leiðbeinandi vinnuferla (verklagslýsing og gátlistar).
Ábyrgðaraðilar og farvegur fyrir mál:
- Sá sem fær upplýsingar um einelti eða annað ofbeldi kemur þeim til námsráðgjafa eða annars starfsmanns sem hann treystir (móttakandi upplýsinganna kemur þeim áfram til skólameistara).
- Skólameistari skipar í eineltisteymi eftir því sem við á hverju sinni (fulltrúi/fulltrúar stoðþjónustunnar: náms- og starfsráðgjafi og/eða skólahjúkrunarfræðingur, aðstoðarskólameistari, áfangastjóri, eða e.a. annar starfsmaður).
- Eineltisteymi eða sá sem fær mál til úrlausnar fylgir leiðbeinandi vinnuferli um meðferð mála sem hafa verið tilkynnt (þrjú stig: Könnun (formleg eða óformleg), úrlausn, eftirfylgd). Ef ekki næst ásættanleg lausn geta foreldrar/forráðamenn nemenda yngri en 18 ára, nemendur 18 ára og eldri eða skólinn óskað aðkomu fagráðs menntamálastofnunar samkvæmt gr. reglugerðar nr. 326/2016.
1. Tilkynning
a. Allir geta tilkynnt um einelti eða áreitni, s.s. nemendur, kennarar og annað starfsfólk og foreldrar/forráðmenn
b. Nokkrir leiðir til að tilkynna:
- Í gegnum tilkynningarhnapp á heimasíðu: Einelti/Ofbeldi?
- Tala við náms- og starfsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðing eða annan starfsmann, s.s. kennara, sem kemur upplýsingum áfram til skólameistara; einnig er hægt að tala beint við skólameistara, aðstoðarskólameistara eða aðra stjórnendur.
- Senda tilkynningu í tölvupósti til skólameistara.
c. Allar ábendingar/tilkynningar um einelti eru teknar alvarlega – þeim er vísað til skólameistara.
d. Sá sem fær tilkynningu vísar málinu til skólameistara sem kannar málið frekar eða felur það öðrum (fái náms- og starfsráðgjafi eða hjúkrunarfræðingur málið getur hann, áður en hann vísar málinu til skólameistara, aflað lágmarksupplýsinga, s.s. með óformlegu spjalli eða í trúnaði, s.s. kannað hjá öðru starfsfólki sem vinnur með viðkomandi nemanda, hvort þar hafi orðið vart við vanlíðan eða neikvæð samskipti).
e. Frá upphafi máls eru allar upplýsingar skráðar með formlegum hætti og í framhaldi lausnir og ákvarðanir sem eru teknar: Aðeins skráðar staðreyndir, s.s. um stund og stað en engar túlkanir. Góð skráning auðveldar öðrum aðkomu að málinu, verði hún nauðsynleg. Eyðublaðið Skráning aðgerða vegna gruns um einelti, áreitni eða ofbeldi er notað í gegnum allt ferlið og skráð í það eftir því sem upplýsingar verða til og ákvarðanir eru teknar.
f. Ef niðurstaða könnunar er að mál teljist ekki eineltismál, áreitni- eða ofbeldismál, þá er ekki fleira að gert að sinni en fylgst með framvindu og skerpt á fræðslu. Niðurstöðuna skal tilkynna meintum þolanda og loka málinu sem skal vistað í málaskrá.
2. Könnun máls – Hvað á að gera?
a. Sá sem fær málið, e.a. teymi, skipuleggur hvað skal gera, í hvaða röð og hver gerir hvað.
b. Valinn ábyrgðaraðili í teyminu ræðir við foreldra/forráðamenn meints þolanda ef hann er undir 18 ára aldri. Hann ræðir einnig við þolandann. Þolanda er strax veittur stuðningur.
c. Annar ábyrgðaraðili er valinn til að ræða við meinta/n gerendur/geranda og foreldra/forráðamenn hans ef hann er undir 18 ára aldri. Honum er veittur stuðningur ef þess er þörf.
d. Valinn ábyrgðaraðili ræðir við aðra sem geta varpað ljósi á málið (s.s. möguleg vitni og kennara).
e. Könnun skal lokið innan tveggja vikna frá því að tilkynning barst.
f. Könnun lýkur með áætlun um úrlausn sem felur í sér óformlega eða formlega málsmeðferð, samanber 3. lið hér neðar og skilgreint verklag vegna eineltis, kynferðislegrar eða kynbundinnnar áreitni og annars ofbeldis í skólanum.
- þó að ef um er að ræða kynferðislega áreitni eða refsiverða háttsemi skal málið alltaf fá formlega málsmeðferð og leita til lögreglu eða barnaverndarnefndar ef nemandi er undir 18 ára aldri.
- Ákvörðun um málsmeðferð er annars í samráði við þolanda og foreldra ef nemandi undir 18 ára aldri.
- Aðrir málsaðilar eru upplýstir um niðurstöðuna
g. Niðurstaða könnunar getur verið að um sé að ræða ámælisverða hegðun sem telst þó ekki einelti en getur t.d. verið metið sem agabrot, dæmi:
- Vægt agabrot: Tiltal eða ef nauðsyn krefur tímabundin brottvísun frá einhverju tilgreindu.
- Alvarlegt agabrot: Nemanda kann að vera vísað frá skóla – samband haft við foreldra/forráðamenn ef nemandi er undir 18 ára aldri og upplýst um málavexti.
- Ítrekuð agabrot: Skrifleg aðvörun og foreldrar/forráðamenn upplýstir ef nemandi er undir 18 ára aldri; ef hegðunin hættir ekki þá er nemanda vísað tímabundið frá skóla, eða alveg, eftir alvarleika brotsins.
3. Val á málsmeðferð og áætlun um úrlausn skipulögð
a. Óformleg málsmeðferð skal ekki taka lengri tíma en 1 mánuð frá því að tilkynning um málið barst:
Óformleg málsmeðferð: Leitað er upplýsinga hjá þolanda og honum veittur stuðningur (trúnaðarsamtal eða ráðgjöf) – Aðrir fá ekki upplýsingar en þó foreldrar ef nemandi er undir 18 ára aldri. Rætt einslega við þolanda og geranda (ekki sami aðili), leitað eftir tillögum beggja að úrlausn. Hámarkstími meðferðar er 1 mán. Skili hún ekki árangri eða málið er flókið og alvarlegt eða að þolandi óskar eftir formlegri málsferð, þá tekur hún við.
b. Formleg málsmeðferð skal ekki taka lengri tíma en 6 vikur frá því að ákvörðun var tekin um málsmeðferð.
Formleg málsmeðferð: Hlutlaus athugun á málsatvikum (e.a. teymi); rætt við alla hlutaðeigandi og aðra sem geta veitt upplýsingar. Þolandi og gerandi upplýstir jafnóðum um framvindu. Lausn fundin en hún getur falist í málamiðlun (sáttamiðlun), ráðgjöf, handleiðslu eða viðurlögum á grundvelli skólareglna. Að jafnaði er mælt með þessari leið en náist ekki árangur er leitað til utanaðkomandi sérfræðings sem á alltaf við um mál sem varða kynferðislega áreitni eða annað ofbeldi. Formlegri málsmeðferð hjá FVA lýkur þar með.
4. Úrlausnaráætlun
a. Fyrirliggjandi, skráð úrlausnaráætlun er virkjuð (getur t.d. falist í sáttamiðlun) og unnið samkvæmt henni. Allar upplýsingar um lausnir, ákvarðanir og samþykki málsaðila og einnig foreldra/forráðamanns ef nemandi er undir 18 ára aldri, eru skráðar á Eyðublaðið Skráning aðgerða vegna gruns um einelti, áreitni eða ofbeldi.
b. Ef ekki næst ásættanleg niðurstaða þarf að vísa málinu t.d. til fagráðs menntamálastofnunar (sbr. 3. lið í kaflanum Ábyrgðaraðilar og farvegur fyrir mál) eða fá sérfræðing að málinu (sbr. b lið í kaflanum Málsmeðferð).
5. Eftirfylgd – Mál leitt til lykta
a. Skólameistari og teymi sem er með málið gera áætlun um eftirfylgd í kjölfar aðgerða; þeir eiga áfram samráð við foreldra/forráðamenn málsaðila sem eru undir 18 ára aldri. Ákveðið er hver er tengiliður við foreldra/forráðamenn á meðan eftirfylgd varir.
b. Eftirfylgd er skipulögð og skráð á Eyðublaðið Skráning aðgerða vegna gruns um einelti, áreitni eða ofbeldi, þ.e. hver sinnir henni og hvað felst í henni, s.s. skipulagður stuðningur og skipulagt aðhald fyrir málsaðila, þolanda og geranda/gerendur. Eftirfylgd getur varað í allt að 4 mánuði.
6. Máli formlega lokið
Máli er lokað með formlegum hætti: Niðurstöður skráðar og undirritaðar á Eyðublaðið Skráning aðgerða vegna gruns um einelti, áreitni eða ofbeldi. Öll gögn málsins eru vistuð í málaskrá.
Tengd skjöl
Stefna FVA gegn einelti, áreitni og öðru ofbeldi
Eyðublað fyrir skráningu aðgerða vegna gruns um einelti, áreitni eða annað ofbeldi