fbpx

SKILGREININGAR OG UPPLÝSINGAR FYRIR NEMENDUR

VEGNA EINELTIS, ÁREITNI OG OFBELDIS

Stefna FVA er að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi í skólanum er ekki liðið. Komi upp grunur um háttsemi starfsmanns eða nemanda sem særir eða er meiðandi fyrir samstarfsfólk eða samnemendur er allra ráða leitað til leysa það hið fyrsta á faglegan og farsælan hátt.

Öruggt náms- og starfsumhverfi

Til þess að stuðla að öruggu náms- og starfsumhverfi í skólanum er lögð áhersla á góð samskipti og þeim haldið á lofti í umræðum og með fræðslu um þýðingu einkunnarorða FVA, virðing, jafnrétti og fjölbreytileiki. Það er á ábyrgð allra, bæði nemenda og starfsfólks, að stuðla að jákvæðum samskiptum, samkennd og virðingu fyrir öðrum og að láta vita ef út af ber, þ.e. ef nemandi eða starfsmaður verður fyrir eða verður vitni að ótilhlýðilegri hegðun hjá samnemanda eða starfsfólki.

Skilgreiningar og upplýsingar

Skilgreiningar
Einelti

Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða t.d. valda honum ótta. Gerandi getur verið samnemandi, kennari, annar starfsmaður skólans eða t.d. gestur skólans eða verktaki við skólann. Dæmi um hegðun geranda:

  • Ósanngjörn eða neikvæð gagnrýni í viðurvist annarra
  • Endurteknar skammir
  • Endurtekin stríðni
  • Baktal og sögusagnir
  • Nemandi er lítillækkaður eða útilokaður frá félagahópi
  • Nemanda er hótað (t.d. á samfélagsmiðli)
  • Einn eða fleiri skemmta sér á kostnað annars
  • Líkamlegt, s.s. að slegið er til viðkomandi
  • Skemmdarverk (eigur skemmdar)
Hvað er ekki einelti?

Mikilvægt er að hafa í huga að skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna sem getur komið upp milli nemenda eða fleiri, t.d. nemanda og kennara, telst ekki einelti, nema hann komi upp aftur og aftur. Gerist það, þarf að leysa málið hið fyrsta svo það þróist ekki til þess að verða eineltismál.   

Kynferðisleg áreitni

Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðg­andi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Dæmi:

  • Senda eða sýna kynferðislegrar eða klámfengnar myndir
  • Kynferðislegt tal
  • Óvelkomin snerting, s.s. káf, kossar, faðmlög
  • Kynferðislegar athugasemdir um klæðaburð eða útlit
  • Gláp
  • Farið inn á persónulegt rými einstaklings
Kynbundin áreitni

Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi. Dæmi:

  • Óviðeigandi talsmáti eða framkoma sem tengist kyni og kynhneigð fólks
  • Niðurlæging til dæmis vegna aldurs eða kyns, s.s. að efast um hæfni sökum kyns
  • Uppnefni þar sem notuð eru kynbundin orð með neikvæðum eða lítillækkandi hætti
  • Almennt neikvætt viðhorf um ákveðið kyn í skólanum/á vinnustaðnum
  • Útilokun frá hópastarfi vegna kyns
Ofbeldi

Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður; einnig hótun um slíkt, þvingun eða handa­hófs­kennd svipting frelsis. Dæmi:

  • Þegar einhver meiðir, til dæmis sparkar, lemur, hrindir eða klípur
  • Hótun um að meiða
  • Kynferðisleg áreitni með orðum og látbragði er líka ofbeldi
  • Hunsun, að uppnefna fólk og/eða öskra á það
Önnur ótilhlýðileg háttsemi

Getur falist í óviðeigandi eða lítilsvirðandi framkomu. Dæmi:

  • Móðgun; upplifun þess sem fyrir verður skiptir máli, einn getur upplifað það sem móðgun eða ótilhlýðilega háttsemi sem annar tekur ekki nærri sér.
Hvert á ég að leita? Ábending/kvörtun um einelti, áreitni eða ofbeldi

Ef þú upplifir einelti, áreitni eða ofbeldi, sjálf/ur eða gagnvart öðrum, í skólanum eða á viðburði á vegum skólans skaltu leita til einhvers af eftirtöldum:

Þú getur farið og hitt viðkomandi eða sent skilaboð eða tölvupóst um þú þurfir að hitta hann. Þú getur einnig talað við annan starfsmann sem þú treystir og kemur boðum til skólameistara. Þú getur líka sent kvörtun í gegnum tilkynningarhnapp á heimasíðu: Einelti/Ofbeldi?  

Hvað er gert?

Móttakandi kvörtunar/ábendingar tekur henni alvarlega. Mál er alltaf rannsakað og aflað upplýsinga eins og hægt er. Ef málsaðilar eru undir 18 ára aldri eru foreldrar/forráðamenn kallaðir að borðinu. Það fer svo eftir alvarleika brotsins hvernig tekið er á málinu til að leysa það. T.d. getur gerandi í málinu fengið tiltal eða áminningu og jafnvel brottvísun úr skóla ef brotið er alvarlegt og ef hann brýtur aftur af sér. Þolandi fær stuðning og aðstoð sem hann þarf og fylgst er með því hvort áreitni og/eða ofbeldið endurtaki sig.